Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Umsögn í þingmáli 891 á 149. þingi


Þingmál lagt fram: 07.05.2019 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 5 Fjöldi umsagnarbeiðna við þingmál: 9 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Bandalag háskólamanna Viðtakandi: Efna­hags- og við­skipta­nefnd Dagsetning: 16.05.2019 Gerð: Umsögn
Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis Nefndarsvið skrifstofu Alþingis Austurstræti 8-10 150 Reykjavík Reykjavík, 16. maí 2019 Efni: Vegna frumvarps um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum (nýting séreignarsparnaðar), 891. mál. Bandalag háskólamanna fagnar öllum stuðningi stjórnvalda til handa einstaklingum til að eignast eigið íbúðarhúsnæði og stuðla að lægri skuldsetningu vegna íbúðarhúsnæðis. Hraðari niðurgreiðsla höfuðstóls felur í sér sparnað þar sem vaxtaútreikningur byggist á sífellt lægri grunni og heildarvaxtakostnaður verður lægri yfir lánstíma en ef ekki hefði verið greitt inn á höfuðstól. Þannig er valkvæður möguleiki sem þessi gott innlegg inn í það hávaxtaumhverfi sem almenningur býr við hér á landi. BHM beinir því þó til stjórnvalda að nýta þetta tækifæri og gera útfærslubreytingar sem tryggja myndu jafnræði í notkun úrræðisins. Föst fjárhæð leyfilegrar skattfrjálsrar ráðstöfunar á húsnæðislán fyrir hvern einstakling eða sambúðarfólk, með engum eða lengri tímamörkum, myndi tryggja jafnræði. Til að mynda eru hámarksgreiðslur Fæðingarorlofssjóðs með þeim hætti að þeir sem nýta rétt sinn til fæðingarorlofs ná ekki að fullnýta rétt sinn til skattfrjálsrar ráðstöfunar á því tímabili. Sama staða getur komið upp hjá einstaklingum sem verða tímabundið óvirkir á vinnumarkaði af öðrum orsökum. BHM telur rétt að huga að þessum þáttum enda úrræðið ekki síst ætlað ungu fólki.