Stimpilgjald

Umsögn í þingmáli 88 á 149. þingi


Þingmál lagt fram: 18.09.2018 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 5 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 18 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum Viðtakandi: Efna­hags- og við­skipta­nefnd Dagsetning: 17.04.2019 Gerð: Umsögn
149. Löggjafarþing 2018-2019 Þingskjal 88 - 88. mál Umsögn vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013 (kaup einstaklings á íbúðarhúsnæði). BæiarfuNtrúar Siálfstæðisflokksins í Vestmannaevium leggja fram eftirfarandi umsögn við ofangreint frumvarp til laga: Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna framlögðu frumvarpi um afnám stimpilgjalda vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði. Æskilegt væri að samhliða þessari tillögu að breytingu á lögum um stimpilgjöld væri bætt við frumvarpið ákvæði sem lýtur að afnámi stimpilgjalda er varða eignaryfirfærslu skipa. Áður hafa verið gerðar breytingar á stimpilgjöldum á Alþingi um að skjöl tengd eignaryfirfærslu á loftförum, minni skipum og kaupskipum séu undanþegin stimpilgjaldi og eru skip yfir 5 brúttótonnum einu atvinnutækin sem enn bera stimpilgjald þegar eignaryfirfærsla á sér stað. Sjávarútvegurinn er eina atvinnugreinin þar sem vinnutæki (fiskiskip) lúta þeim álögum að fyrir fjárfestingu nýrra vinnutækja (fiskiskipa) þurfi að greiða stimpilgjöld og þekkist slík skattlagning hvergi á öðrum Norðurlöndum. Sértæk gjaldheimta leggst nú þegar þungt á sjávarútveginn í formi veiðileyfagjalda og ótækt að leggja enn frekari kvaðir á borð við stimpilgjöld á útgerðir ekki síst á sama tíma og stjórnvöld hvetja til fjárfestinga sem leiða af sér umhverfisvænni skipakosti. Sjávarútvegurinn er burðarás í atvinnulífi og hagkerfi Íslendinga og nauðsynlegt að stjórnvöld leggi sitt af mörkum við að tryggja að nægur hvati sé til endurnýjunar, framþróunar og nýsköpunar í greininni, en stimpilgjöld á fiskiskip geta seint talist til slíkra hvata heldur frekar sem þröskuldur. Nýleg dæmi um loðnubrest sanna einnig enn og aftur að miklar sveiflur geta orðið með stuttum fyrirvara í greininni sem geta haft verulega neikvæð áhrif á rekstrarskilyrði fyrirtækja í sjávarútvegi. Með afnámi stimpilgjalda á fiskiskip geta stjórnvöld lagt sín lóð á vogarskálarnar við að draga úr áhrifum slíkra sveiflna, auka samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs og viðhalda jafnræði meðal atvinnugreina. 17. apríl 2019 Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum Hildur Sólveig Sigurðardóttir, aðalmaður Helga Kristín Kolbeins, aðalmaður Trausti Hjaltason, aðalmaður Eyþór Harðarson, varamaður Margrét Rós Ingólfsdóttir, varamaður Sigursveinn Þórðarson, varamaður