Félög til almannaheilla

Umsögn í þingmáli 785 á 149. þingi


Þingmál lagt fram: 30.03.2019 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 17 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 27 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Hagsmunasamtök heimilanna Viðtakandi: Efna­hags- og við­skipta­nefnd Dagsetning: 13.06.2019 Gerð: Umsögn
Umsögn um 785. mál á 149. löggjafarþingi Nefndasvið Alþingis Austurstræti 8-10 150 Reykjavík 13. júní 2019 Efni: Umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna um 785. mál á 149. löggjafarþingi Frumvarp til laga um félög til almannaheilla Hagsmunasamtök heimilanna eru frjáls félagasamtök sem hafa þann yfirlýsta tilgang að koma fram sem málsvari íslenskra heimila, með því markmiði að efla og stuðla að framgangi réttinda þeirra eftir öllum löglegum leiðum sem standa til boða hverju sinni (þ.e. til almannaheilla). Í því sambandi hafa samtökin einkum sérhæft sig í réttindum neytenda á fjármálamarkaði. Frumvarp það sem hér um ræðir felur í sér tillögu um heildarlög um starfsemi almannaheillafélaga, sem er nýmæli í íslenskum rétti, en hingað til hefur slík starfsemi einkum byggst á óskráðum reglum félagaréttar. Að mati samtakanna er það til bóta að skrásetja þær reglur til að gera þær aðgengilegar og skýrar fyrir þátttakendur í starfsemi slíkra samtaka. Aftur á móti verður að gæta þess að við slíka lagasetningu séu ekki lagðar nýjar og íþyngjandi kvaðir á slíka starfsemi. Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu komu samtökin á framfæri umsögn við drög að því í samráðsgátt stjórnvalda. Að hluta til er komið til móts við athugasemdir samtakanna með nánari skýringum í greinargerð með frumvarpinu, sem bætir nokkuð úr skák þó það hafi ekki áhrif á sjálfan lagatextann. Engu að síður verður ekki hjá því komist að ítreka athugasemdir samtakanna við ákvæði 3. málsl. 5. mgr. 19. gr. frumvarpsins um útilokun þeirra sem hafa orðið gjaldþrota frá stjórnarsetu í samtökum til almannaheilla, sem er að engu leyti komið til móts við í frumvarpinu. Hagsmunasamtök heimilanna telja eðlilegt að setja það skilyrði að hafi bú einstaklings verið tekið til gjaldþrotaskipta skuli hann láta af fjárráðum eða yfirstjórn í félagi til almannaheilla, svo sem stöðu gjaldkera, formanns eða framkvæmdastjóra. Aftur á móti er vandséð að nein málefnaleg rök standi til þess að útiloka þá sem hafa orðið gjaldþrota alfarið frá því að taka þátt í stjórnarstörfum. Svo dæmi sé tekið gæti það torveldað starfsemi félaga í þágu einstaklinga í fjárhagserfiðleikum. Er því lagt til að skilyrðinu um að vera fjár síns ráðandi verði breytt svo það eigi ekki við um meðstjórnendur félaga til almannaheilla ef þeir fara ekki með fjárreiður eða yfirstjórn þeirra að öðru leyti. - o - Virðingarfyllst, f.h. Hagsmunasamtaka heimilanna, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formadur@heimilin.is Guðmundur Ásgeirsson, erindreki@heimilin.is Hagsmunasamtök heimilanna • Ármúla 5 • 108 Reykjavík • kt. 520209-2120 • heimilin@heimilin.is • www.heimilin.is http://www.althingi.is/ http://www.heimilin.is/ https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=149&mnr=785 https://www.althingi.is/altext/149/s/1245.html https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=1345&uid=60b474e2-984a-e911-9450-005056850474 http://www.heimilin.is/ mailto:formadur@heimilin.is mailto:erindreki@heimilin.is mailto:heimilin@heimilin.is http://www.heimilin.is