Frysting fjármuna og skráning aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna

Umsögn í þingmáli 774 á 149. þingi


Þingmál lagt fram: 01.04.2019 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 3 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 2 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Utanríkisráðuneytið Viðtakandi: Utanríkismála­nefnd Dagsetning: 05.06.2019 Gerð: Minnisblað
Reykjavík 4. Júní 2019 Minnisblað til Utanríkismálanefndar vegna umsagnar um 774. mál, frumvarp til laga um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna. Tvær umsagnir bárust utanríkismálanefnd um málið, annars vegar frá Persónuvernd sem gerði ekki athugasemdir við frumvarpið, og hins vegar frá Lögmannafélagi Íslands. Í umsögn LMFÍ dagsettri 4. júní 2019 koma fram nokkrar ábendingar við frumvarp til laga um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna. Í minnisblaði þessu verður er leitast við að bregðast við athugasemdum þess. 1. Með hugtakinu „alþjóðlegar þvingunaraðgerðir" er vísað í alþjóðlegar þvingunaraðgerðir í skilningi laga nr. 93/2008 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og ekki talin þörf á skilgreina hugtakið sérstaklega í þessu frumvarpi. Hvað varðar hugtakið „listi yfir þvingunaraðgerðir" í 2. gr. er ekkert því til fyrirstöðu að bæta við orðskýringu ef það er til þess fallið að auka skýrleika frumvarpsins. Breytingartillaga: Við 2. gr. frumvarpsins bætist nýr stafliður svohljóðandi: listi yfir þvingunaraðgerðir: Breytilegur listi yfir einstaklinga, samtök, hópa eða lögaðila sem alþjóðleg þvingunaraðgerð, í skilningi laga nr. 93/2008 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða, beinist gegn. 2. Bent er á að orðalag 1. mgr. 4. gr. geti að óbreyttu veri óljóst. Hér að framan var lagt til að bætt yrði við skilgreiningu á hugtakinu „listi yfir þvingunaraðgerðir" og því ætti það að vera skýrt. Til að tryggja að ekki fari milli mála hvaða lög er átt við má gera eftirfarandi breytingu á 1. mgr. 4. gr. : Breytingartillaga: 1. mgr. 4. gr. orðist svo: Skylt er að frysta fjármuni og efnahagslegan auð í samræmi við reglugerðir sem settar eru á grundvelli laga nr. 93/2008 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða til að koma í veg fyrir hvers konar fjármagnsflutning, svo sem afhendingu fjármuna, úttektir, millifærslu, eignarskráningu sem og önnur viðskipti og hindra þannig að aðilar á listum yfir þvingunaraðgerðir fái greiðslur í hendur eða geti nýtt fjármuni með öðrum hætti. 3. Fram kom það sjónarmið að skilyrði skráningar á lista yfir þvingunarðaðgerðir komi ekki skýrt fram í 8. gr. frumvarpsins. Tilvitnað ákvæði kveður eingöngu á um rannsóknir vegna tilnefningar á lista yfir þvingunaraðgerðir sem er nauðsynlegur undanfari þess að aðili sé skráður á slíkan lista. Ítarleg skilyrði fyrir tilnefningu og skráningu aðila á lista eru í 9.-11. gr. þar sem m.a. er vísað til þess að eitt af skilyrðum fyrir skráningu er rökstudd tillaga Ríkislögreglustjóra þar sem niðurstaða rannsóknar skv. 8. gr. skuli fylgja. Til að skýra betur samhengi 8. gr. og eftirfarandi greina um skráningu má gera eftirfarandi breytingu: Breytingartillaga: 1. mgr. 8. gr. ásamt fyrirsögn, orðist svo: Rannsókn vegna tilnefningar á lista yfir þvingunaraðgerðir. Þrátt fyrir að grunur liggi ekki fyrir um refsivert athæfi er lögreglu heimilt að hefja rannsókn á aðila samkvæmt ákvæðum laga um meðferð sakamála ef til staðar er réttmætur grundvöllur eða réttmætar ástæður til að ætla að hann uppfylli skilyrði fyrir skráningu á lista yfir þvingunaraðgerðir skv. 9., 10., eða 11. gr. 4. Lagaáskilnaðarreglur stjórnarskrár í tengslum við innleiðingu alþjóðlegra þvingunaraðgerða með reglugerð voru ekki teknar til skoðunar við vinnslu frumvarpsins. Þó má nefna að regluverk um innleiðingu alþjóðlegra þvingunaraðgerða er að finna í lögum nr. 93/2008, og var áður í lögum nr. 5/1969 um framkvæmd fyrirmæla Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, og er þar kveðið á um að fyrirmæli Öryggisráðsins séu framkvæmd með auglýsingu. Núverandi fyrirkomulag byggir í grunninn á því að hægt sé að framkvæma aðgerðirnar á sem skemmstum tíma og á samræmdan hátt milli landa. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 93/2008 kemur fram að „farið hefur fram mikið starf á vegum alþjóðastofnana, ríkja og samtaka í að styrkja beitingu þvingunaraðgerða. Úr þessu starfi hafa komið tilmæli um að ríki noti stjórnvaldsfyrirmæli við framkvæmd á þvingunaraðgerðum þar sem of tímafrekt sé að setja ný lög um hverja ályktun alþjóðasamfélagsins um þvingunaraðgerð. Þessi aðferð er í samræmi við framkvæmd á meðal annarra norrænna ríkja en þau innleiða öll ályktanir um þvingunaraðgerðir með slíkum hætti." 5. Gætt er að sjálfstæði lögmannstéttarinnar í 4. mgr. 16. gr. frumvarpsins þar sem tryggt er að upplýsingar sem lögmaður öðlast við athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings í tengslum við dómsmál, þ.m.t. þegar hann veitir ráðgjöf um hvort höfða eigi mál eða komast hjá máli, eða upplýsingar sem hann öðlast fyrir, á meðan eða eftir lok dómsmáls, eru trúnaðarbundnar upplýsingar sem eru undanþegnar skyldu til upplýsingagjafar til eftirlitsaðila.