Framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2019–2022

Umsögn í þingmáli 771 á 149. þingi


Þingmál lagt fram: 30.03.2019 Tegund þingmáls: Þingsályktunartillaga Fjöldi umsagna við þingmál: 10 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 147 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Félagsvísindasvið Háskóla Íslands Viðtakandi: Velferðar­nefnd Dagsetning: 14.05.2019 Gerð: Umsögn
Umsögn um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2019 - 2022 frá Háskóla Íslands, félagsvísindasviði. 1. Langtímaúrræði vegna þungaðra mæðra, þar sem verðandi barni er stefnt í hættu. Einungis hafa verið til skammtímaúrræði er varðar þungaðar mæður sem eru í áfengis- og vímuefnaneyslu en skort hefur langtímaúrræði fyrir þennan hóp. Nokkrir tugir tilkynninga berast nú árlega um fóstur sem stefnt er í hættu. Mikilvægt er að til sé úrræði þar sem hægt er að loka verðandi mæður inni og halda þeim frá vímuefnaneyslu þegar þörf krefur. 2. Styðja á við ýmis úrræði samkvæmt tillögunni, t.d. PMT og MST. Hins vegar vantar alveg tvö úrræði í þessa flóru. ART er úrræði sem er ekki síður mikilvægt en PMT. PMT er gagnlegt þegar um yngri börn er að ræða, sérstaklega á aldrinum fjögra til átta ára en ART er heppilegt fyrir börn sem eru eldri og allt upp í unglingsaldur. Þegar unnið er út frá PMT aðferðinni eða PMTO eins og hún hefur verið kölluð nú síðari ár, þá er unnið með foreldra barns. Í ART er unnið með barnið sjálft og einnig með foreldrum barnsins. Unnið er að því að bæta siðferðisþroska, félagsfærni og reiðistjórnun. Rannsóknir styðja árangur ART meðferðar. Auk þess eru höfuðstöðvar ART á Suðurlandi en þaðan hafa fjölmargir fagaðilar fengið þjálfun í að beita ART aðferðinni, svo hér er einnig verið að styðja við landsbyggðina með því að styrkja þetta verkefni. Það getur ekki síður verið hluti af barnavendarúrræðum heldur en PMT. Einnig vantar úrræði þar sem unnið er með tengslamyndun foreldra og barns en rannsóknir hafa sýnt að stór hluti barna sem verður fyrir misbresti í uppeldi er með svokallaða óskipulagða tengslamyndun (e. disorganized attachment). Reyndar er til úrræði á Landspítala þar sem unnið er með tengslamyndun barna og foreldra og á það sér stundum stað í barnaverndarmálum. En mikilvægt er að fram fari mat á því hvort um tengslaröskun sé að ræða þegar um alvarleg barnaverndarmál er að ræða. Hér á landi hefur það ekki verið gert með markvissum hætti fram að þessu. Það er þó til slík skimun erlendis sem hægt væri að nýta hérlendis. 3. Fjallað er um endurskoðun á SOF kerfinu og að gerðar séu verklagsreglur um það hvernig beri að tilkynna. Ekki er fjallað um að aðili frá Háskóla Íslands taki þátt í endurskoðun á SOF þrátt fyrir að það hafi verið aðili þaðan sem vann SOF kerfið á sínum tíma (sá hinn sami og veitir þessa umsögn). Reyndar hefur Barnaverndarstofa tekið þann aðila út sem höfund og hann er skráður sem aðili sem hefur tekið kerfið saman. Því hefur staðið yfir deila um höfundarrétt af þessu kerfi. Ekki er ljóst hvað er átt við með verklagsreglum um það hvernig beri að tilkynna mál. Það hljómar óþarflega flókið og gæt hreinlega fælt fólk frá því að tilkynna mál til barnaverndaryfirvalda. Í raun er það mjög einfalt. 4. Ekkert er komið inn á það að auka fræðslu um barnavernd meðal þeirra stétta sem eru helst í návígi við börn eins og t.d. kennara, leikskólakennara, dagforeldra,og þá sem starfa með börnum í tómstundum svo sem íþróttum, skólagæslu og fleira. Einungis er boðið upp á eitt valnámskeið á Menntavísindasviði um barnavernd. Afar mikilvægt er að auka fræðslu þeirra sem eru helst í stöðu að geta tilkynnt um börn sem verða fyrir misbresti í uppeldi, svo unnt sé að bregðast við sem fyrst þegar slíkt á sér stað. 5. Að lokum þyrfti að fjölga barnaverndarstarfsmönnum til muna. Það er einkennilegt að sjá að til standi að setja mikla peninga í allskonar sérverkefni á sviði barnaverndar á sama tíma og barnaverndarstarfsmenn eru alltof fáliðaðir og hver þeirra með alltof mörg mál á sinni könnu. Þar sem það að starfa við barnavernd er mjög krefjandi í sjálfu sér vegna eðli málanna, er afar mikilvægt að barnaverndarstarfsmenn hafi andrými og geti sinnt málum sínum vel og hafi til þess tíma. Æskilegur málafjöldi á hvern starfsmann eru 20 - 25 mál en dæmi eru um að barnaverndarstarfsmenn séu jafnvel með tvöfalt fleiri mál. Það gefur auga leið að erfitt er að sinna hverju máli vel þegar svo er. Auk þess getur verið afar erfitt að vinna í svo persónulegum og viðkvæmum málum þar sem er mikil nánd eins og í smærri sveitarfélögum. Því er velt upp hér þeirri hugmynd að færa málaflokkinn frá sveitarfélögum til ríkis, skipta landinu upp í átta landsfjórðunga og vinna málin á breiðari grunni á landsbyggðinni. Hægt væri að gera samninga við stærstu sveitarfélögin um að sinna málaflokknum áfram en einungis þau sem hefðu fleiri en 10.000 íbúa. Með þessu móti væri hægt að vinna betur faglega í málum og ekki væri um eins mikla nánd að ræða á smærri stöðum. Auk þess má nefna að smærri sveitarfélög hafa oft ekki bolmagn til þess að bjóða upp á kostnaðarsöm úrræði í barnavernd og það getur hreinlega verið of dýrt fyrir sveitarfélög að beita nauðsynlegum en dýrum úrræðum eins og t.d. að senda börn í fóstur. Þá er hætt við að fjármálahliðin far að skipta meira máli en hagsmunir barnsins sem þarf á tilteknum úrræðum að halda. Reykjavík, 14. maí, 2019. Freydís Jóna Freysteinsdóttir (MSW, PhD) Dósent í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Freydís hefur starfað sem barnaverndarstarfsmaður, sem félagsmálastjóri ogverið varamaður í Kærunefnd barnaverndarmála. Helsta rannsóknarsvið hennar er á sviði ofbeldis og vanrækslu barna. Hún vann m.a. doktorsverkefni sitt á sviði barnaverndar og er höfundur að skilgreiningar-og flokkunarkerfinu SOF.