Tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Umsögn í þingmáli 762 á 149. þingi


Þingmál lagt fram: 28.03.2019 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 8 Fjöldi umsagnarbeiðna við þingmál: 9 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Ríkisskattstjóri Viðtakandi: Efna­hags- og við­skipta­nefnd Dagsetning: 20.08.2019 Gerð: Minnisblað
Minnisblað Til: Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis Frá: Ríkisskattstjóra Dags.: 20. ágúst 2019 Efni: Minnisblað fjármála- og efnahagsráðuneytis, dags. 6. júní 2019, í tengslum við frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur (skattlagning tekna af höfundarréttindum) Að beiðni efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis bendir ríkisskattstjóri á eftirfarandi atriði í tengslum við framangreint minnisblað skrifstofu skattamála hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu vegna þskj. 1213 - 762. mál: Fram kemur af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að ef gerð yrði breyting á umræddu þingskjali þá myndi 1. gr. frumvarpsins verða svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði 3. tölul. A-liðar 7. gr. skulu greiðslur til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa vegna síðari afnota eftir að verk skv. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 hefur verið gert aðgengilegt almenningi, birt eða gefið út, sbr. 2. og 3. mgr. sömu laga, teljast til fjármagnstekna án nokkurs frádráttar. Ákvæði 2. gr. frumvarpsins yrði svohljóðandi: Ákvæði laga þessara, svo sem um skilaskylda aðila, afdrátt staðgreiðslu og skilaskyldu staðgreiðslu, gilda um greiðslur til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa vegna síðari afnota eftir að verk skv. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 hefur verið gert aðgengilegt almenningi, birt eða gefið út, sbr. 2. og 3. mgr. sömu laga, sbr. 4. málsl. 3. mgr. 66. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Jafnframt er á það bent af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytis að skýra þurfi ítarlega í nefndaráliti að eingöngu greiðslur vegna nýtingar verka eftir að þau eru orðin aðgengileg almenningi samkvæmt höfundalögum muni ef af verður teljast til fjármagnstekna. Í höfundalögum nr. 73/1972 sé nánar skilgreint í 2. og 3. gr. laganna hvenær verk teljist hafa verið gerð aðgengileg almenningi eða birt og gefin út fyrir almenning. Í nefndaráliti sé einnig þörf á að fram komi ítarleg lýsing á því hvað átt sé við með orðunum ,,vegna síðari afnota". Sem dæmi megi nefna að endurútgáfa á bók teljist eingöngu til vörusölu og kaup á lagi til afspilunar teljist til vörukaupa, gagnstætt því sem t.a.m. á við ef lag er flutt í útvarpi og höfundur fær greitt af því stefgjald. Þannig teldust ,,beinar tekjur af seldum eintökum" til almennrar vörusölu en ,,óbeinar tekjur af einhvers konar nýtingu á verkinu", s.s. þegar kort er gert eftir málverki, tónverk sem nýtt er í leikverk o.s.frv. til fjármagnstekna. Ríkisskattstjóri tekur undir allt það sem fram kemur í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis til efnahags- og viðskiptanefndar. Verði umræddar breytingar á skattlagningu af höfundarréttargreiðslum að veruleika er afar mikilvægt að þær tekjur sem ekki eiga að teljast til almennra tekna og lúta skattlagningu sem fjármagnstekjur (eignatekjur) séu vel afmarkaðar. Verður ekki annað séð en að sú breyting sem ráðuneytið leggur til í þessum efnum nái því markmiði. Jafnframt þarf þó að koma skýrt fram í nefndaráliti vegna breytinga á frumvarpinu hvað sé undirliggjandi og að tekin séu dæmi þar um eins og ráðuneytið leggur til. Rétt væri jafnframt að ítreka að þessi breyting tekur eingöngu til tekna einstaklinga, ekki lögaðila eins og t.d. einkahlutafélaga, og með því að tekjur teljist til eignatekna af því tagi sem um ræðir er allur frádráttur á móti þeim óheimill. Sá hluti tekna listamanna sem félli undir að vera fjármagnstekjur (eignatekjur) yrði því að færa í persónuframtal viðkomandi en ekki rekstrarframtal. Ríkisskattstjóri vill enn fremur benda á að huga þarf að samspili væntanlegra breytinga við nýsett lög nr. 88/2019, um sameiginlega umsýslu höfundarréttar. Þar koma m.a. fram ýmsar skilgreiningar sem vert er að skoða hvort séu í þversögn við fyrirhugaðar breytingar. Þá telur ríkisskattstjóri að efni séu til þess að tekið sé sérstaklega fram að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um nánari útfærslu á skattlagningu höfundarréttargreiðslna.