Tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Umsögn í þingmáli 762 á 149. þingi


Þingmál lagt fram: 28.03.2019 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 7 Fjöldi umsagnarbeiðna við þingmál: 9 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Fjármála- og efna­hags­ráðuneytið Viðtakandi: Efna­hags- og við­skipta­nefnd Dagsetning: 06.06.2019 Gerð: Minnisblað
Málaskrá FJR GoPro - Lookup Documents By GPUNID Fjármála- og efnahagsráðuneytið M i n n i s b l a ð Viðtakandi: Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis Sendandi: Fjármála- og efnahagsráðuneytið; skrifstofa skattamála Dagsetning: 06.06.2019 Málsnúmer: FJR19011110 Bréfalykill: 3.6 Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur (skattlagning tekna af höfundaréttindum) Að beiðni efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis hefur skrifstofa skattamála (SSK) tekið saman minnisblað um helstu álitaefni tengd frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur (þskj. 1213 - 762. mál) ásamt mögulegri útfærslu á breytingartillögu. Helsta álitaefni frumvarpsins má rekja til umsagnar Rithöfundasambands Íslands (RSÍ) sem nefndinni barst þann 9. apríl sl. Í umsögninni er áréttað að RSÍ sé hlynnt framgangi frumvarpsins en telur þó rétt að gildissvið frumvarpsins verði látið ná yfir allar greiðslur af höfundaverkum eftir frumsköpun en ekki einungis þær greiðslur sem greiddar eru rétthöfum í gegnum eða fyrir tilstilli rétthafasamtaka. RSÍ tekur fram að stór hluti tekna rithöfunda eftir frumsköpun lúti m.a. að sölu á t.d. kvikmyndarétti að bókmenntaverkum eða rétti til sviðsuppsetningar í leikhúsi og slíkir samningar séu ávallt gerðir á einstaklingsgrunni en ekki fyrir tilstilli eða milligöngu samtaka rétthafa. Þá er tekið fram að enginn eðlismunur sé á greiðslum til rétthafa vegna t.d. sölu á kvikmyndarétti verndaðs bókmenntaverks og þeim greiðslum sem berast rétthöfum í gegnum RSÍ. Því er lagt til að fellt verði brott það skilyrði að greiðslur til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa verði að berast frá viðurkenndum samtökum rétthafa. Við samningu frumvarpsins hafði ráðuneytið til hliðsjónar vilja ríkisstjórnarinnar um skattlagningu höfundaréttartekna, en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar var kveðið á um að höfundaréttartekjur sem færu í gegnum viðurkennd samtök rétthafa yrðu skattlagðar sem eignatekjur/fjármagnstekjur. Helstu rökin fyrir þessari leið eru m.a. þau að hún stuðlar að auknu gegnsæi og minnkar líkur á skattundanskotum eða rangri skattalegri meðhöndlun höfundaréttartekna án ásetnings. Einnig, líkt og fram kemur í minnisblaði ríkisskattstjóra (RSK) til nefndarinnar, var hugsunin með þessari leið sú að eingöngu væri verið að líta til „nýtingar“ á verkum sem þegar hafa verið sköpuð en ekki vörusölu með beinni eignatilfærslu milli aðila, sbr. eftirfarandi sem fram kemur í 3. kafla greinagerðar frumvarpsins: ,,Núgildandi fyrirkomulag á skattlagningu tekna a f höfundaréttindum hefur sætt gagnrýni þar sem komið hafa fram þau sjónarmið að eðlilegt þyki að tekjur vegna nýtingar á verkum sem þegar hafa veríð sköpuð séu skattlagðar eins og aðrar tekjur manna a f eignum sínum “ . Með þessu væri heldur ekki verið að hrófla við þeirri meginreglu að allar greiðslur vegna sölu á verkum sem jafna má við hverja aðra vörusölu, s.s. útgáfurétti eða bókum, tónlist, myndverkum og öðru slíku, teljast til almennra tekna viðkomandi. Ráðuneytið er þ.a.l. ósammála því sem fram kemur í umsögn RSÍ um að enginn eðlismunur sé annars vegar á greiðslum til rétthafa vegna t.d. sölu á kvikmyndarétti verndaðs bókmenntaverks og hins vegar þeim greiðslum sem berast rétthöfum í gegnum RSÍ þar sem í síðara tilvikinu er um að ræða nýtingu á verki sem er í samræmi við núverandi afmörkun á gildissviði frumvarpsins. Á fundi SSK með fulltrúa efnahags- og viðskiptanefndar þann 29. maí sl. kom fram hugsanlegur vilji nefndarinnar til þess að víkka út gildissvið frumvarpsins. Á fundinum fóru fulltrúar SSK yfir fyrirliggjandi frumvarp og ákvæði þess. Lögð var áhersla á að eingöngu væri um að ræða greiðslur til einstaklinga sem höfunda og/eða annarra rétthafa, sbr. tilvísun 1. gr. frumvarpsins til 3. tölul. A-liðar 7. gr. tekjuskattslaga, en slíkar tekjur teljast nú til almennra tekna sem sæta launaskattlagningu. Verði frumvarpið að lögum munu slíkar tekjur vegna nýtingar verka hins vegar teljast til fjármagnstekna. Ekki er því um það að ræða samkvæmt frumvarpinu að atvinnutekjur, sbr. B-lið 7. gr. tekjuskattslaga, geti talist til fjármagnstekna samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi. Ef vilji nefndarinnar stendur til þess að gera breytingar á frumvarpinu í þá veru að það verði ekki bundið við „viðurkennd samtök rétthafa“ telur ráðuneytið að skýra þurfi ítarlega í nefndaráliti að eingöngu sé um að ræða greiðslur vegna nýtingar verka eftir að það er orðið aðgengilegt almenningi samkvæmt höfundalögum, sbr. minnisblað RSK til nefndarinnar. Í höfundalögum nr. 73/1972 er fjallað um réttindi höfunda o.fl. í I. kafla laganna sem ber heitið ,,Réttindi höfunda o.fl.“. Koma þarf skýrt fram í nefndaráliti að eingöngu sé um að ræða höfundaréttindi til handa höfundum eða öðrum einstaklingum sem rétthöfum vegna verka sem falla undir lögin sem slík sbr. 1. gr. laganna. Þá er nánar skilgreint í 2. og 3. gr. laganna hvenær verk teljist hafa verið gerð aðgengileg almenningi eða birt og gefin út fyrir almenning. Í þessu sambandi má benda á að viðvarandi voru t.a.m. deilur um það hvað teldist vera listaverk listamanna í skilningi laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt sem væru undanþegin virðisaukaskatti eða almenn verslunarvara, en í frumvarpi því sem varð að lögum um virðisaukaskatt kom m.a. fram að undir hugtakið listaverk féllu ekki endurgerðir listaverka í fjöldaframleiðslu eða handiðnaðarvörur með einkennum verslunarvöru. Ef til slíkrar breytingar kæmi leggur ráðuneytið til að í stað orðanna „frá viðurkenndum samtökum rétthafa“ í 1. og 2. gr. frumvarpsins komi eftirfarandi: „vegna síðari afnota eftir að verk skv. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 hefur verið gert aðgengilegt almenningi, birt eða gefið út, sbr. 2. og 3. gr. sömu laga“. Ákvæði 1. gr. frumvarpsins yrði þá svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði 3. tölul. A-liðar 7. gr. skulu greiðslur til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa vegna síðari afnota eftir að verk skv. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 hefur verið gert aðgengilegt almenningi, birt eða gefið út, sbr. 2. og 3. mgr. sömu laga, teljast til fjármagnstekna án nokkurs frádráttar. Ákvæði 2. gr. frumvarpsins yrði þá svohljóðandi: Ákvæði laga þessara, svo sem um skilaskylda aðila, afdrátt staðgreiðslu og skilaskyldu staðgreiðslu, gilda um greiðslur til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa vegna síðari afnota eftir að verk skv. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 hefur verið gert aðgengilegt almenningi, birt eða gefið út, sbr. 2. og 3. mgr. sömu laga, sbr. 4. málsl. 3. mgr. 66. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Í nefndaráliti er einnig þörf á að fram komi ítarleg lýsing á því hvað átt sé við með orðunum ,,vegna síðari afnota“. Sem dæmi má nefna að endurútgáfa á bók teljist eingöngu til vörusölu og kaup á lagi til afspilunar teljist til vörukaupa, gagnstætt því sem t.a.m. á við ef lag er flutt í útvarpi og höfundur fær greitt af því stefgjald. Þannig teldust ,,beinar tekjur af seldum eintökum“ til almennrar vörusölu en ,,óbeinar tekjur af einhvers konar nýtingu á verkinu“, s.s. þegar kort er gert eftir málverki, tónverk sem nýtt er í leikverk o.s.frv. til fjármagnstekna. Að lokum bendir ráðuneytið á að ef ofangreind breytingatillaga verður að veruleika þarf að uppfæra mat á kostnaðaráhrifum frumvarpsins. Slíkt mat er í skoðun innan SSK.