Kynrænt sjálfræði

Umsögn í þingmáli 752 á 149. þingi


Þingmál lagt fram: 25.03.2019 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 24 Fjöldi umsagnarbeiðna við þingmál: 30 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Barnaverndarstofa Viðtakandi: Alls­herjar- og mennta­mála­nefnd Dagsetning: 15.05.2019 Gerð: Umsögn
Bréf Alþingi, nefndasvið Reykjavík, 15. maí 2019 Austurstræti 8 - 10 2019010031 150 REYKJAVÍK Efni: Umsögn - frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði - 752. mál. Efni: Umsögn Barnaverndarstofu um frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði, 752. mál. Barnaverndarstofa vísar til erindis nefndasviðs Alþingis, dags. 3. apríl 2019, þar sem stofunni var gefið tækifæri á að gefa allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis umsögn um frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði, 752. mál. Þakkar Barnaverndarstofa fyrir að fá tækifæri til þess að tjá sig um frumvarpið og biðst velvirðingar á því að það hafi tafist að senda nefndinni umsögnina. Barnaverndarstofa styður heils hugar það markmið frumvarpsins sem miðar að því að auka réttindi barna á þessu sviði. Telur Barnaverndarstofa þó ástæðu til þess að hugað verði betur að rétti barna til sérstakrar verndar og stuðnings í frumvarpinu. Í fyrsta lagi telur Barnaverndarstofa rétt að ávallt liggi fyrir sérstakt mat á því hvort breyting á skráningu kyns sé í samræmi við það sem barni er fyrir bestu þegar samþykki foreldra liggur ekki fyrir en ekki eingöngu þegar barn er undir 15 ára aldri líkt og frumvarpið gerir nú ráð fyrir. Í þessu sambandi telur Barnaverndarstofa mikilvægt að horft verði annars vegar til mikilvægi þess að áður en skráningu er breytt liggi afstaða foreldra ávallt fyrir. Andstaða foreldra getur reynst barni mjög þungbær, óháð því hvort barn hefur náð 15 ára aldri eða ekki, og afstaða sérfræðinga um að það sé barni fyrir bestu að fá skráningu breytt getur verið barni mikilvæg í samskiptum við foreldra sína. Einnig þarf að horfa til þess að andstaða foreldra getur sett barn í erfiða stöðu og í einhverjum tilvikum gæti slíkt viðhorf hugsanlega fallið undir það að vera tilfinningaleg vanræksla gagnvart barni. Er því mikilvægt að afstaða foreldra liggi ávallt fyrir og í þeim tilvikum þar sem andstaða foreldra er mikil en sérfræðingar telja breytta skráningu barni fyrir bestu þurfi að líta til þess hvort gera þurfi barnaverndarnefnd viðvart um andstöðu foreldra eða vangetu þeirra til að sinna tilfinningalegum þörfum barns að þessu leyti. Hins vegar telur Barnaverndarstofa mikilvægt að líta til þess að í undantekningartilvikum getur sálrænn vandi legið til grundvallar vilja til að skipta um kyn og sérfræðingar sem veita barni þjónustu telja það ekki hagsmuni barns að það skipti um kyn. Telur Barnaverndarstofa því varhugavert að börn frá 15 ára aldri geti breytt skráningu á kyni án þess að sérfræðinganefnd um breytingu kynskráningu barna og/eða afstaða forsjáraðila liggi fyrir. Í þriðja lagi telur Barnaverndarstofa mikilvægt að litið verði til hagsmuna og réttinda intersex barna með meira afgerandi hætti en frumvarpið gerir ráð fyrir. Annars vegar telur Barnaverndarstofa varhugavert að hægt sé að gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum einstaklinga undir 16 ára aldri og telur rétt að farið sé varlega í slíkar aðgerðir án samþykkis viðkomandi barna. Hins vegar telur Barnaverndarstofa varhugavert að samþykki barns eitt og sér dugi til framkvæmda slíkra aðgerða hafi þau náð 16 ára aldri. Telur Barnaverndarstofa mikilvægt að í þessum málum sé sérstaklega hugað að sérstökum stjórnarskrárbundnum rétti barna til verndar og að aldrei séu gerðar slíkar aðgerðir á börnum (þ.e. einstaklingum undir 18 ára aldri) nema farið hafi fram sérstakt mat á því að slík aðgerð sé barni fyrir bestu og að börn fái ávallt að tjá sig um áður en ákvarðanir eru teknar og tekið sé aukið tillit til skoðana þeirra og óska eftir því sem aldur og þroski leyfir. Barnaverndarstofa veitir allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis fúslega allar nánari upplýsingar og skýringar sem þörf er á verði óskað eftir því og er reiðubúin að mæta á fund nefndarinnar verði þess óskað. Virðingarfyllst f.h. Barnaverndarstofu Heiða Björg Pálmadóttir forstjóri Barnaverndarstofu