Fjármálaáætlun 2020–2024

Umsögn í þingmáli 750 á 149. þingi


Þingmál lagt fram: 23.03.2019 Tegund þingmáls: Þingsályktunartillaga Fjöldi umsagna við þingmál: 63 Fjöldi umsagnarbeiðna við þingmál: 39 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Velferðar­nefnd Viðtakandi: Fjár­laga­nefnd Dagsetning: 17.05.2019 Gerð: Umsögn
Microsoft Word - 750. mál um fjármálaáætlun_ umsögn velferðarnefndar_loka 149. löggjafarþing 2018-2019. 750. mál. Umsögn um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2019-2023. Frá velferðamefnd. Nefndin hefur að beiðni fjárlaganefndar frá 27. mars sl. fjallað um málið. Í áætluninni er byggt á því að stjórnvöld fylgi fjármálaáætlun um opinber fjármál fyrir árin 2020-2024, sem byggist á fyrirliggjandi fjármálastefnu fyrir árin 2018-2022 og skilyrðum hennar. Í áætluninni eru sett markmið fyrir öll málefnasvið og með því er ætlunin að skapa sem skýrast samhengi milli faglegra markmiða og þeirra fjármuna sem varið er til einstakra málefnasviða. Í beiðni fjárlaganefndar var lagt til að höfð yrði hliðsjón af þeim ábendingum sem fram komu í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar í fyrra. Nánar tiltekið var óskað eftir því að velferðarnefnd hefði til hliðsjónar ábendingar annars vegar um að tryggja þyrfti samræmi milli kröfulýsingar sem hjúkrunarheimilum væri ætlað að starfa eftir og daggjalda sem fjármögnuðu rekstur þeirra og að áfram yrði unnið að því stefnumiði með nýjum samningum. Hins vegar að á þremur málefnasviðum velferðarráðuneytisins hefði ekki tekist nægilega vel að stýra útgjöldum fram til þessa. Það ætti við um örorkumálefni, lyfjakostnað og samninga við lækna utan sjúkrahúsa. Úrlausn þeirra mála hefði ekki haft nægan forgang hjá stjórnvöldum. Við umfjöllun nefndarinnar um fjármálaáætlun var lögð áhersla á fyrrnefnd atriði. Nefndin hefur undanfarið, að eigin frumkvæði, fjallað um samningaviðræður ríkis og sveitarfélaga við hjúkrunarheimili og rekstraraðila dagdvala. Telur nefndin ástæðu til að gera grein fyrir þeirri athugun sinni enda er hún í samræmi við þau atriði sem fjárlaganefnd óskaði álits á. Nefndinni hefur ekki gefist tími til að fjalla ítarlega um önnur atriði fjármálaáætlunar en undirstrikar þó það sem kom fram í umsögnum meiri og minni hluta velferðarnefndar um fjármálaáætlun í fyrra að áhersla á lýðheilsu og forvarnir muni hafa gríðarlega jákvæð áhrif á heilbrigðismál. Mikilvægt er að styrkja aðkomu heilsugæslunnar að forvörnum sem og að vinna að endurhæfingu. Öldruðum á Íslandi fjölgar og er mikilvægt að huga að því að allir landsmenn búi við sem besta heilsu í sem lengstan tíma. Að mati nefndarinnar mun aukin áhersla á forvarnir og endurhæfingu létta á öllu heilbrigðiskerfinu, stytta biðlista eftir nauðsynlegri þjónustu og auka lífsgæði þjóðarinnar almennt. Sú áhersla sem lögð er á forvarnir í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 gefur vonir um að ráðist verði í aðgerðir á þessu málefnasviði en svo að markmið stefnunnar náist er nauðsynlegt að tryggja fjármagn til slíkra aðgerða. Einnig undirstrikar nefndin þá áherslu sem er í fyrirliggjandi heilbrigðisstefnu á heilsugæsluna á landsbyggðinni og beinir því til fjárlaganefndar að tryggja að það markmið stefnunnar endurspeglist í fjármálaáætlun. 24. Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa. Í áliti meiri hluta fjárlaganefndar í fyrra var bent á að ekki hefði tekist að stýra samningum við sjálfstætt starfandi lækna þannig að heildarútgjöldin rúmuðust innan fjárheimilda. Nefndin bendir á að rammasamningur milli Sjúkratrygginga Íslands og sérgreinalækna um lækningar utan sjúkrahúsa rann út 31. desember 2018. Í fyrirliggjandi fjármálaáætlun segir að heilbrigðisráðherra hafi falið Sjúkratryggingum Íslands að gera úttekt fyrir einstakar sérgreinar læknisfræðinnar. Ljóst er að frekari skilgreining á því hvaða þjónustu ríkið ákveður að kaupa af sérgreinalæknum kann að verða forsenda í samningagerð sérgreinalækna við Sjúkratryggingar Íslands og mun væntanlega takast betur að stýra útgjöldum í málaflokknum þegar fyrir liggja skýrari skilgreiningar á því hvaða þjónustu ríkið mun kaupa. Nefndin leggur áherslu á að kröfulýsingar um þjónustu sérgreinalækna verði kostnaðargreindar og hugað verði að því hvort nægilegt fjármagn sé tryggt svo að hægt verði að setja samningagerð í forgang án þess að Sjúkratryggingar Íslands þurfi að draga úr annarri lögbundinni þjónustu. 25. Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta. Nefndin hefur fjallað um samningaviðræður rekstraraðila hjúkrunar- og dvalarheimila við Sjúkratryggingar Íslands og fengið á fund sinn Eybjörgu H. Hauksdóttur og Pétur Magnússon frá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu og Maríu Heimisdóttur, Katrínu Hjörleifsdóttur og Guðlaugu Björnsdóttur frá Sjúkratryggingum Íslands. Rammasamningur milli Sjúkratrygginga Íslands og hjúkrunarheimila um þjónustu hjúkrunarheimila féll úr gildi 31. desember 2018. Samkvæmt ákvæðum samningsins var heimilt að framlengja hann til tveggja ára en ekki náðist samkomulag milli Sjúkratrygginga Íslands og rekstraraðila hjúkrunarheimilanna um framlengingu. Frá áramótum hefur því ekki verið í gildi samningur um rekstur hjúkrunarheimilanna. Staðan í dag er því sú að rekstraraðilar hjúkrunarheimilanna fá greitt í samræmi við gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands fyrir þjónustu hjúkrunarheimila sem ekki eru á föstum fjárlögum árið 2019 og eru án samnings við Sjúkratryggingar Íslands. Við umfjöllun nefndarinnar um málið kom fram að gjaldskráin hefði verið sett einhliða af Sjúkratryggingum Íslands og án samráðs við rekstraraðila hjúkrunarheimilanna. Fjármagnið sem rekstraraðilum væri tryggt á grundvelli samningsins sem féll úr gildi síðustu áramót hefði rýrnað samhliða því að kröfur sem gerðar væru til starfseminnar hefðu aukist. Fyrir liggur að ekki hefur enn tekist að samræma þær kröfulýsingar sem hjúkrunarheimilum er ætlað að starfa eftir og fjárhæð daggjalda sem fjármagna rekstur þeirra líkt og bent var á í áliti meiri hluta fjárlaganefndar í fyrra. Í 3. mgr. 43. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, segir að heilbrigðisstofnanir og aðrir veitendur heilbrigðisþjónustu skuli kostnaðargreina þjónustu sína samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum aðferðum. Ekki hefur verið dregin skýr lína um það hvort það sé hlutverk Sjúkratrygginga Íslands eða rekstraraðila hjúkrunarheimilanna að gera þá kostnaðargreiningu en að mati nefndarinnar er ákvæði laganna skýrt um að það sé á ábyrgð þjónustuveitanda. Hins vegar segir í greinargerð um 43. gr. að Sjúkratryggingar Íslands ákveði í samráði við veitendur heilbrigðisþjónustu þær aðferðir sem notaðar skuli við kostnaðargreiningunna. Að mati nefndarinnar er ljóst að forsenda þess að hægt sé að ná samningum um rekstur hjúkrunarheimilanna sé að kröfulýsingar að byggist á kostnaðargreiningu. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu virðast hafa gert atlögu að því að láta kostnaðargreina þá þjónustu sem fyrirtæki innan samtakanna veita en ekki virðist hafa náðst samkomulag um forsendur þeirrar greiningar eða hver skuli vinna hana. Nefndin telur að tryggja þurfi fjármagn svo að hægt verði að komast að samkomulagi um þær forsendur sem liggja skuli að baki slíkri kostnaðargreiningu. 26. Lyf og lækningavörur. Í áliti meiri hluta fjárlaganefndar í fyrra kom fram að áætlanir um lyfjaútgjöld hefðu ekki gengið eftir og raunkostnaður orðið mun hærri en áætlað var. Í fjármálaáætlun sem lögð var fram á síðasta ári var gert ráð fyrir því að framlög til málefnasviðsins yrðu 66% hærri árið 2023 en var á fjárlögum fyrir árið 2017. Í fyrirliggjandi fjármálaáætlun, 2020-2024 er gert ráð fyrir því að framlög hækki enn frekar. Nefndin beinir því til fjárlaganefndar að kannað verði sérstaklega hvernig gengið hafi að ná tökum á lyfjaútgjöldum ríkisins á síðasta ári. 27. Örorka og málefni fatlaðs fólks. Boðuð er töluverð hækkun á málefnasviðum sem snúa að fyrirhuguðum breytingum á bótakerfum almannatrygginga sem vinna á í samráði við forsvarsmenn örorkulífeyrisþega. Þá segir í fjármálaáætlun að innbyggt sé svigrúm til þess að bregðast við hugsanlegri útgjaldaaukningu vegna leiðréttingar á örorkugreiðslum af völdum búsetuskerðingar. Þótt umfang málsins sé enn til skoðunar hjá félagsmálaráðuneytinu og Tryggingastofnun ríkisins beinir nefndin því til fjárlaganefndar að huga vel að því hvort hækkunin dugi til leiðréttingar á greiðslu örorkulífeyris til framtíðar auk leiðréttingar til þeirra sem hafa sætt þessari ólögmætu skerðingu. Aðrar ábendingar. Nefndin bendir á að heildarútgjöld málefnasviða nefndarinnar eru um 2/3 af heildarútgjöldum ríkissjóðs og kunna að fara vaxandi, m.a. með tilliti til breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar. Málefnasvið nefndarinnar eru því umfangsmikill þáttur í fjármálaáætluninni og kann að vera ástæða til þess að skoða hvort hægt sé að koma á ítarlegra samstarfi milli fjárlaganefndar og velferðarnefndar. Alþingi, 15. maí 2019 Halldóra Mogensen, form. Ólafur Þór Gunnarsson. Ásmundur Friðriksson. Andrés Ingi Jónsson. Anna Kolbrún Árnadóttir. Guðjón S. Brjánsson. Guðmundur Ingi Kristinsson. Hjálmar Bogi Hafliðason. Vilhjálmur Árnason.