Fjármálaáætlun 2020–2024

Umsögn í þingmáli 750 á 149. þingi


Þingmál lagt fram: 23.03.2019 Tegund þingmáls: Þingsályktunartillaga Fjöldi umsagna við þingmál: 63 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 39 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Atvinnuveganend,meiri hluti Viðtakandi: Fjár­laga­nefnd Dagsetning: 15.05.2019 Gerð: Umsögn
149. löggjafarþing 2018-2019. 750. mál. Umsögn um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024. Frá meiri hluta atvinnuveganefndar. Nefndin hefur fjallað um þann hluta fjármálaáætlunar sem heyrir undir málefnasvið hennar. Um er að ræða málefnasvið 7 nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar, 12 landbúnaður, 13 sjávarútvegur og fiskeldi, 14 ferðaþjónusta, 15 orkumál og hluta af málefnasviði 16 markaðseftirlit, neytendamál og stjórnsýsla atvinnumála. Nefndin fékk á sinn fund Skarphéðin Berg Steinarsson og Ólaf Reyni Guðmundsson frá Ferðamálastofu, Sólmund Má Jónsson og Þorstein Sigurðsson frá Hafrannsóknastofnun og Sigurborgu Daðadóttur frá Matvælastofnun. Markmið fjármálastefnu eru útfærð í fjármálaáætlun og er heildarútgjöldum raðað til næstu fimm ára eftir málefnasviðum. Nánari forgangsröðun og skipting fjárheimilda birtist í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2020 sem lagt verður fram á næsta löggjafarþingi. Við undirbúning frumvarps til fjárlaga mun þurfa að raða verkefnum á grundvelli ramma fjármálaáætlunar. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að nauðsynlegt væri að hlúa vel að rannsóknum, nýsköpun og vöruþróun í ferðaþjónustu. Rannsóknir þurfi að stuðla að einhveiju og mikil sóknarfæri séu í nýsköpun. Var nefndinni einnig bent á að nauðsynlegt væri að stuðla að auknum flugsamgöngum út á land og að alþjóðlegu flugi á Akureyri til þess að ferðamenn dreifðust betur um landið og álagið yrði jafnara. Nefndinni var bent á að verið væri að skoða hvernig megi auka og efla markaðsstofuna en bent var á að hlutfallslega væru fjárveitingar í ferðamál minni en í öðrum atvinnugreinum. Meiri hluti nefndarinnar telur mikilvægt að fjárlaganefnd skoði hvort svigrúm sé til að setja aukið fjármagn í rannsóknir í ferðaþjónustu til þess að unnt sé að stuðla að aukinni nýsköpun og framþróun í greininni og þannig stuðlað að því að festa ferðaþjónustuna enn frekar í sessi sem framtíðaratvinnugrein. Við umfjöllun um málefni Matvælastofnunar komu fram sjónarmið um að varðandi landbúnaðarmál vantaði umfjöllun um að nálgast verkefnið heildstætt í samræmi við hugtakið „ein heilsa“ (e. One Health) sem m.a. hefði verið fjallað um á vettvangi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Var bent á að á alþjóðlega vísu væri verið að vekja athygli á mikilvægi þess að heilsa manna verði ekki skilin frá heilsu dýra því um 60% sjúkdóma smitast á milli manna og dýra. Bent var á að mikið þjóðarverðmæti væri falið í framúrskarandi heilsu dýra og staðan í íslenskum landbúnaði og fiskeldi væri afar góð og lítið um sjúkdóma og því þurfi að setja inn í markmið áætlunarinnar að viðhalda þeirri góðu stöðu. Mikill niðurskurður hafi orðið í fjárveitingum til stofnunarinnar í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 en á sama tíma hafi verkefni aukist, ekki síst í fiskeldi þar sem aðeins sé einn eftirlitsmaður. Var bent á að verið væri að áætla Matvælastofnun allt of lítið fjármagn miðað við þau verkefni sem hún sinnir. Nefndin bendir á að fyrir liggur frumvarp til laga, sem nefndin er með til meðferðar og áætlað er að taki gildi fyrir þinglok, sem heimilar innflutning landbúnaðarafurða frá EES-svæðinu frá 1. september 2019. Samhliða frumvarpinu hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið gert aðgerðaáætlun í 15 liðum, sem miðar að því að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu1. Meiri hluti nefndarinnar bendir á að nauðsynlegt er að umræddar mótvægisaðgerðir verði komnar til framkvæmda sem fyrst. Nefndin leggur því áherslu á að tryggt verði fjármagn til þess að hægt sé að hrinda þeim í framkvæmd og halda þeim áfram. Við umfjöllun um málefni Hafrannsóknastofnunar komu fram sjónarmið um að markmið fjármálaáætlunar væru mjög skýr en fjárveitingar væru ekki í samræmi við markmiðin. Var bent á að áætlunin geri ráð fyrir uppsafnaðri lækkun fjármagns á árunum 2020-2022 um 503 millj. kr. og leiðrétting um 150 millj. kr. vegna lækkunar sértekna úr Verkefnasjóði hafi því litla þýðingu. Niðurstöður starfshóps sem skipaður var til að greina rekstur stofnunarinnar hafi verið að árleg hagræðingarkrafa, uppreiknuð hækkun sértekna og aukin aðsókn í sértekjur leiði til þess að stærri hluti starfseminnar fari í sértekjuverkefni og minni hluti í grunnrannsóknir. Var bent á að afleiðingarnar yrðu þær að draga þyrfti úr vöktun á nytjastofnum og þar af leiðandi að draga úr nytjum á stofnunum. Meiri hluti nefndarinnar bendir á að umfangsmiklar rannsóknir og reglulegar mælingar eru nauðsynlegar til að nýting auðlindanna byggist á bestu fáanlegu þekkingu og sé sjálfbær. Við skiptingu ríkisfjár í fjármálaáætlun þarf að tryggja að stofnunin geti sinnt verkefnum sínum þar sem afkoma þjóðarinnar byggist að stórum hluta á nýtingu auðlinda hafsins. Þá bendir meiri hluti nefndarinnar á að skerðing á aflaheimildum leiðir af sér samdrátt í tekjum ríkissjóðs. Meiri hluti nefndarinnar telur mikilvægt að fjármálaáætlun endurspegli vöxt samfélagsins næstu ár og uppsafnaða þörf á fjármagni til ólíkra málaflokka. Meiri hluti nefndarinnar bendir á að verið er að færa fjölmörgum stofnunum á málasviði nefndarinnar aukin verkefni með ýmsum þingmálum. Forsenda þess að slíkt sé unnt er að þeim sé tryggt nægilegt fjármagn til þess að sinna þeim verkefnum. Þá er mikilvægt að gott eftirlit sé með atvinnuvegum í landinu, ekki síst þeim sem eru að byggjast upp. Nauðsynlegt er að stofnunum sé tryggt nægilegt fjármagn til þess að þær geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu, t.d. virku eftirliti með þeim málaflokkum sem þær bera ábyrgð á. Það er liður í að tryggja hagkvæma nýtingu á auðlindum landsins og viðhalda þeirri góðu stöðu sem hefur náðst t.d. varðandi heilbrigði búfjárstofna. Alþingi, 10. maí 2019. Lilja Rafney Magnúsdóttir, form. Ásmundur Friðriksson. Halla Signý Kristjánsdóttir. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Njáll Trausti Friðbertsson. Ólafur Ísleifsson. Sigurður Páll Jónsson. 1 https://www.stjornarradid.is/verkefni/atvinnuvegir/landbunadur/innflutningur-a-ofrystu- kjoti-o.fl/ https://www.stjornarradid.is/verkefni/atvinnuvegir/landbunadur/innflutningur-a-ofrystu-