Fjármálaáætlun 2020–2024

Umsögn í þingmáli 750 á 149. þingi


Þingmál lagt fram: 23.03.2019 Tegund þingmáls: Þingsályktunartillaga Fjöldi umsagna við þingmál: 63 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 39 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Samtök iðnaðarins Viðtakandi: Fjár­laga­nefnd Dagsetning: 09.04.2019 Gerð: Umsögn
Nefndasvið Alþingis b.t. fjárlaganefndar nefndasvid@althingi.is Reykjavík, 8. apríl 2019 Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024, 750. mál Fjárlaganefnd hefur óskað eftir umsögn Samtaka iðnaðarins (SI) um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024. Bætt samkeppnishæfni Íslands er eitt af meginmarkmiðum ríkisstjórnarinnar samkvæmt stjórnarsáttmálanum. Samtök iðnaðarins fagna þessu. Alþjóðleg samkeppnishæfni hvers lands er lykilforsenda bættra lífskjara. Með markvissum aðgerðum m.a. á sviði ríkisfjármála vinna flest ríki heims að því að bæta stöðu síns lands í samkeppni við önnur ríki. Skýr stefna, fumlaus framkvæmd og markviss eftirfylgni ríkisvaldsins á þessu sviði leiðir til raunverulegra umbóta og leggur grunn að auknum lífsgæðum íbúa. Í umræddri þingsályktunartillögu kemur fram að útgjöld málefnasviða séu í megindráttum með svipuðu sniði og í síðustu fjármálaáætlun. Hins vegar kemur fram að með sérstökum ráðstöfunum, almennu aðhaldi og viðbótararðgreiðslum hafi skapast svigrúm til þess að auka framlög til nokkurra málaflokka í þeirri áætlun sem nú liggur fyrir. Um er að ræða sókn í samgöngumálum, nýsköpun og velferð. Samtök iðnaðarins fagna þessu sérstaklega og hvetja til þess að þessum áherslum verði fylgt eftir þrátt fyrir breyttar forsendur. Nýtum fjármál hins opinbera til að efla samkeppnishæfnina Í þingsályktuninni segir að samkeppnishæfni þjóðarbúsins á hinu alþjóðlega sviði skipti miklu máli fyrir hagþróun, ekki síst til lengri tíma litið. Samkeppnishæfni er lykillinn að mikilli framleiðni og öflugri verðmætasköpun. SI fagna því áherslu stjórnvalda á samkeppnishæfnina. Meginmarkmið Samtaka iðnaðarins er að stuðla að bættri samkeppnishæfni. Áhersla er sérstaklega lögð á umbætur í menntun landsmanna, innviðum landsins, aukna nýsköpun í atvinnulífi og bætt starfsumhverfi fyrirtækja þar sem þessir þættir hafa mest að segja um framleiðniþróun og lífskjör landsmanna. Nýlega gáfu samtökin út skýrsluna „Ísland í fremstu röð - eflum samkeppnishæfnina" þar sem samkeppnishæfni í málaflokkunum fjórum, þ.e. menntun, innviðum, nýsköpun og starfsumhverfi, var skoðuð. Þeirri útgáfu var síðan fylgt eftir með skýrslunni „Mótum framtíðina saman - atvinnustefna fyrir Ísland". Borgartúni 35 - 105 Reykjavík - Sími 591 0100 - mottaka@si.is - www.si.is mailto:nefndasvid@althingi.is mailto:mottaka@si.is http://www.si.is Þar var horft til framtíðar og lagðar fram um 70 tillögur til úrbóta á þessum fjórum sviðum samkeppnishæfninnar, tillögur sem gætu tryggt Íslandi sæti í fremstu röð m.t.t. samkeppnishæfni og lífsgæða. Öguð fjármálastjórnun hins opinbera er lykilþáttur í að treysta samkeppnishæfni íslenskra atvinnuvega. Hið opinbera er mótandi afl í innviðum landsins, nýsköpun atvinnulífs, menntun landsmanna og starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja og birtast áherslur er lúta að umbótum m.a. í fjármálaáætlun stjórnvalda. Áhersla stjórnvalda á samkeppnishæfni er jákvæð að mati SI og eru samtökin reiðubúin að leggja sitt af mörkum í samstarfi við stjórnvöld til þess að vinna að umbótum á því sviði til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag. Hagstjórnartækin virkjuð til að tryggja stöðugleika Efnahagshorfur hafa farið hratt versnandi undanfarið. Sjást þess merki m.a. í hagtölum vinnumarkaðarins þar sem atvinnuleysi hefur aukist og dregið hefur hratt úr vexti vinnuaflseftirspurnar. Einnig sést það í væntingum heimila og stjórnenda fyrirtækja til efnahags- og atvinnuástands. Samhliða hafa efnahagslegar forsendur fjármálaáætlunarinnar breyst umtalsvert til hins verra frá því að hún var lögð fram þar sem í stað hagvaxtar má reikna með því að slaki myndist í hagkerfinu á þessu ári. Slæm tíðindi hafa undanfarið borist af útflutningsgreinum með brotthvarfi WOW air, loðnubresti og versnandi alþjóðlegum hagvaxtarhorfum. Viðbúið er að þessar breytingar muni hafa víðtæk áhrif á íslenskt efnahagslíf ef þeim er ekki mætt með réttum hætti í hagstjórn. Verkefnið nú er að milda efnahagsleg áhrif þessara breytinga. Búum við vel að því að viðnámsþróttur þjóðarbúsins er mikill en það skapar skilyrði til bættra lífskjara. Má í þessu sambandi benda á að fjárhagsstaða fyrirtækja og heimila er almennt séð sterk, afkoma hins opinbera er jákvæð og skuldir hins opinbera litlar í sögulegu og alþjóðlegu samhengi. Einnig er hrein erlend staða þjóðarbúsins jákvæð, sparnaðarhlutfall hátt, viðskiptaafgangur nokkur þó að hann hafi verið að minnka undanfarið og gjaldeyrisforði Seðlabankans stór. Íslenskt hagkerfi hefur verið sveipað óstöðugleika um langa tíð m.a. vegna einhæfni atvinnuvega og skorts á aga í hagstjórn. Aukinn stöðugleiki er öllum fyrirtækjum og heimilum afar mikilvægur. Í stöðugu umhverfi verður framleiðnivöxtur og aukin verðmætasköpun best tryggð, öllum til heilla. Afar slæmt er þegar fjárhagslegum forsendum er kippt undan fyrirtækjum og heimilum líkt og því miður hefur allt of oft gerst í íslenskri hagsögu. Stöðugleiki í efnahagslegu tilliti er eitt af grunngildunum fimm sem gerð er krafa um í lögum um opinber fjármál að fjármálastefna og fjármálaáætlun uppfylli. Með samstilltu átaki í opinberum fjármálum, í peningamálum og meðal aðila vinnumarkaðarins má sem best tryggja mjúka lendingu hagkerfisins. Nýundirritaðir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði eru fagnaðarefni í þessu samhengi en með þeim er stoðum rennt undir stöðugleika litið til lengri tíma. Um er að ræða fjölmarga samninga og yfirgripsmiklar aðgerðir sem aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld hafa sammælst um og ná til tímabilsins 2019 til 2022. Í samningunum er lagður grunnur að hærri launum, einkum lágtekjuhópa, auknum sveigjanleika til að stytta vinnuvikuna, lægri sköttum auk þess sem byggt er undir stöðugleika sem ætti að skapa skilyrði til vaxtalækkunar til framtíðar til hagsbóta fyrir bæði heimilin og fyrirtækin í landinu. Borgartúni 35 - 105 Reykjavík - Sími 591 0100 - mottaka@si.is - www.si.is mailto:mottaka@si.is http://www.si.is SI taka undir það sem kemur fram í fjármálaáætluninni um að fjármálastefna og fjármálaáætlun hins opinbera gegni lykilhlutverki í því að skapa almenningi og fyrirtækjum þekkt og áreiðanleg skilyrði að þessu leyti. Þá er ekki síður mikilvægt í þessu tilliti að stjórnvöld beiti opinberum fjármálum með virkum hætti til að vega á móti hagsveiflum með því að stuðla að jafnvægi á milli framleiðslugetu og eftirspurnar í samspili við stjórn peningamála. Á þessu sviði er verkefnið nú að nýta hagstjórnartækin til að tryggja mjúka lendingu hagkerfisins og undirbyggja hagvöxt til lengri tíma. Nú er lag að nýta það svigrúm sem er innan fjármálareglna til að milda niðursveifluna. Tæki peningastjórnunarinnar eru í þessu sambandi öflug. Seðlabankinn er með stóran gjaldeyrisforða sem við þessar aðstæður á að nýta til að draga úr áhættu tengdri m.a. sveiflum í fjármagnsstreymi til og frá landinu. Eftir aðhaldsaðgerðir síðustu ára eru stýrivextir Seðlabankans nokkuð háir um þessar mundir og svigrúm til lækkunar þeirra því nokkuð, ólíkt því sem er í mörgum nálægum löndum eins og stjórnendur Seðlabankans hafa réttilega bent á. Með lækkun stýrivaxta er hægt að draga úr niðursveiflunni. Forsendur eru til staðar að mati Samtaka iðnaðarins til að taka skref í þeim efnum. Menntun - mætum færni framtíðarinnar Íslensk iðnfyrirtæki skapa um fjórðung landsframleiðslunnar eða um 670 ma.kr. á síðasta ári. Mannauður iðnfyrirtækja er grunnforsenda þessarar verðmætasköpunar en í íslenskum iðnaði starfa um 40 þúsund manns sem er um eitt af hverjum fimm störfum í hagkerfinu. Í ljósi þessa eru umbætur í menntamálum sérstakt baráttumál SI. Samtökin fagna áherslu fjármálaáætlunar um að efla menntun og mannauð í landinu með auknum fjárveitingum og markvissri áætlanagerð. Ákveðið færnimisræmi er á íslenskum vinnumarkaði en í könnun Samtak iðnaðarins árið 2019 kom fram að 73% aðildarfyrirtækja vantar iðn- og tæknimenntaða en einungis 12% vantar háskólamenntaða. Þetta er sá veruleiki sem blasir við. Aðeins þriðjungur nema á framhaldsskólastigi á Íslandi leggur stund á starfsnám á meðan meðaltal Norðurlanda er rúmlega helmingur, þar af yfir 70% í Finnlandi. Í ljósi þessa fagna samtökin sérstaklega áherslubreytingu frá fyrri fjármálaáætlun en málefni starfs- og tæknimenntunar hafa nú loks verið sett í forgang. Telja samtökin verkefni og aðgerðir áætlunarinnar metnaðargjarnt skref í þeirri viðleitni að fjölga starfsnámsnemum. Auknir fjármunir eru lagðir til málaflokksins en mætti ráðuneytið gera betur að draga það fram í áætluninni. Þá er umhugsunarvert að ímyndarátak í þágu starfsmenntunar sé ekki ein af aðgerðum áætlunarinnar. Ítrekað hefur komið fram í könnunum að rótgróin samfélagsviðhorf og fordómar hafa umtalsverð áhrif á val ungmenna á sérhæfingu í framhaldsskóla. Ef ekki er tekið á vandanum er hætt við að erfitt reynist að uppfylla metnaðarfull markmið áætlunarinnar. SI fagna aukningu fjármagns í fjármálaáætluninni til háskóla en gæta þarf að því að það fjármagn fari í réttan farveg, þ.e. til aukningar fjármagni til kennslu í STEM-fögum. Á 20. öldinni byggðu Íslendingar verðmætasköpun sína að miklu leyti á náttúruauðlindum en nýsköpun og öflugur mannauður verður drifkraftur framfara á 21. öldinni. Í ljósi þessa er áhyggjuefni að ekki útskrifast nægilega margir raungreina- og tæknimenntaðir á Íslandi í samanburði við önnur lönd í Evrópu. Hlutfall brautskráðra í STEM-fögunum svokölluðu (e. Science-Technology-Engineering- Mathematics) er rétt um 20% á Íslandi en yfir 25% að meðaltali í löndum OECD. Borgartúni 35 - 105 Reykjavík - Sími 591 0100 - mottaka@si.is - www.si.is mailto:mottaka@si.is http://www.si.is Hlutfallið er talið leika lykilhlutverk í getu hvers lands til nýsköpunar. Gera verður betur að þessu leyti, að öðrum kosti getur reynst erfitt að fjölga stoðum í gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins. Ef ná á fram metnaðarfullum markmiðum á sviði starfsnáms og tæknimenntunar verður að hafa í huga að lengi býr að fyrstu gerð. Koma þarf á markvissum umbótum allt frá fyrstu stigum grunnskóla. Samtökin fagna áherslum áætlunarinnar um nauðsynlegar umbætur fyrir grunnskólastigið, m.a að auka nýliðun kennara. Það er einnig sérstakt ánægjuefni að hugað sé að umbótum á starfsumhverfi kennara í áætluninni. Menntunarstig þjóðarinnar er lágt á Íslandi í samanburði við lönd OECD. Í ljósi þess fagna samtökin sérstaklega áherslum áætlunarinnar er lúta að framhaldsfræðslu og öðrum menntunarúrræðum en mikilvægt er að auka hlutdeild fullorðinna sem sækja endurmenntun á Íslandi og treysta raunfærnimat í sessi. Skoða ætti grundvöll þess að koma einnig upp raunfærnimati á háskólastigi, en samkvæmt tilmælum frá ráðherraráði Evrópusambandsins frá 2012 er mælt með því að ríki Evrópu innleiði raunfærnimat á öllum skólastigum fyrir árið 2018. Ljóst er að íslenskir háskólar þurfa að bregðast fljótt við til að verða ekki eftirbátar annarra Evrópuþjóða. Á árinu 2018 kynntu Samtök iðnaðarins menntastefnu sína „Mætum færni framtíðar" er lýtur m.a. að umbótum á þeim sviðum er nefnd eru að ofan. Kemur skýrt fram í stefnunni að til að unnt sé að ná metnaðarfullum markmiðum á sviði menntunar á Íslandi er lykilatriði að víðtækt samráð sé haft við fulltrúa atvinnulífs. SI eru reiðubúin til samstarfs og samtals um mótun menntastefnu fyrir þjóðina fram til ársins 2030. Það er til mikils að vinna. Innviðir - byggjum lífæðar samfélagsins Hagkvæmir, skilvirkir og áreiðanlegir innviðir sem þjóna þörfum atvinnulífs og heimila skila sér í aukinni samkeppnishæfni þjóðarbúsins, aukinni velmegun og betri lífsgæðum fyrir íbúa. Með fjárfestingum í innviðum eru byggðar stoðir fyrir hagvöxt framtíðarinnar. Fjármálastefna sem hefur mikilvægi innviða að leiðarljósi er líkleg til að tryggja samkeppnishæft atvinnulíf og góð efnahagsleg lífskjör. Á tíma lítilla fjárfestinga á fyrstu árum uppsveiflunnar byggðist upp mikil fjárfestingarþörf sérstaklega í íbúðamálum og opinberum fjárfestingum. Framboð á íbúðum náði ekki að mæta vaxandi fólksfjölda í uppsveiflunni þannig að umtalsverður skortur myndaðist. Birtist skorturinn m.a. í hratt hækkandi verði íbúða umfram launahækkanir. Einnig myndaðist mikil uppsöfnuð þörf fyrir viðhald og nýfjárfestingar í opinberum fjárfestingum, m.a. í samgöngumálum. Nú er góður tími til að vinna á þessum skorti og skapa framboð íbúða sem henta þeirri miklu spurn sem er eftir húsnæði. Átakshópur um aukið framboð á íbúðum skilaði forsætisráðherra tillögum sínum nýlega og er það gott innlegg í þessa umræðu. Kom þar fram að mat hópsins væri að óuppfyllt íbúðaþörf væri á bilinu 5-8 þúsund íbúðir. Leggur nefndin til aðgerðir til að auka framboð hagkvæmra íbúða sem hefur verið tekið með jákvæðum hætti af hálfu ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins. Hafa verður þó í huga að framboð verður að mæta eftirspurn en hlutfallslega meiri spurn er eftir litlum hagkvæmum íbúðum en þeim stærri. Hefur þetta komið fram í fjölmörgum könnunum m.t.t. búsetuóska ungs fólks. Borgartúni 35 - 105 Reykjavík - Sími 591 0100 - mottaka@si.is - www.si.is mailto:mottaka@si.is http://www.si.is Í því sambandi gagnrýna SI að eftirspurnarhlið íbúðarmarkaðarins sé með aðgerðum stjórnvalda styrkt áður en tryggt sé að framboðið sé nægjanlega aukið. Slíkt getur skapað hagstjórnarvanda líkt og við þekkjum frá síðustu árum þar sem húsnæðisskortur og hratt vaxandi eftirspurn hefur stuðlað að hækkun húsnæðisverðs umfram hækkun launa. Áhersla á íbúðamálin í aðkomu stjórnvalda að nýundirrituðum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði er jákvæð að mati SI. Aðgerðirnar eru m.a. byggðar á ofangreindum tillögum átakshópsins. Aðgerðirnar snúa bæði að framboðs- og eftirspurnarhlið markaðarins sem er ætlað bæði til að auka framboð og auðvelda íslenskum heimilum að kaupa eða leigja húsnæði. Í áliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar um nýsamþykkta samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar segir að nú séu að skapast kjöraðstæður til að fara í innviðauppbyggingu. Með henni verður byggt undir framfarir í samfélags- og efnahagsmálum í landinu. Segir þar að fjárfestingaþörf sé í heild á milli 350-400 milljarðar króna. Meirihlutinn telur brýnt að brugðist verði hratt við þeim vanda sem safnast hefur upp síðustu árin. Ekki er hægt annað en að taka undir þessi orð meirihluta nefndarinnar og fagna þeirri aukningu sem varð á fyrirhuguðum samgönguframkvæmdum í meðferð nefndarinnar. Á sviði vegasamgangna er uppsöfnuð þörf fyrir nýfjárfestingar og viðhald umtalsvert. Umferð á vegum landsins hefur aukist verulega undanfarin ár á sama tíma og viðhald og nýfjárfestingar í vegasamgöngum hafa verið litlar. Tafir eru allt of miklar og slys of algeng. Til að bæta þar úr þarf að endurbæta vegakerfið. Nú er kjörið tækifæri til að gera átak á þessu sviði. Með því er dregið úr slakanum sem annars myndast í hagkerfinu og byggt undir hagvöxt framtíðarinnar. Ánægjulegt er að sjá áform ríkisstjórnarinnar í þessum efnum í nýframkominni tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024. Þar er fjárframlag til málaflokksins aukið úr 100 mö.kr. í 120 ma.kr. á tímabilinu. Samgönguráðherra hefur hins vegar sagt að yfir 220 ma.kr. vanti í viðhald og nýfjárfestingar í vegakerfinu. Því til viðbótar er að falla til árleg viðhaldsþörf upp á 11 ma.kr., þ.e. samtals 55 ma.kr. yfir tímabil ofangreindrar fjármálaáætlunarinnar. Samtals eru þetta því yfir 280 ma.kr. í viðhald og nýfjárfestingar. Í áætluninni er gert ráð fyrir samtals 120 ma.kr. í viðhald og nýfjárfestingar í þennan málaflokk eða einungis tæplega 43% af þörf. Ljóst er að betur má ef duga skal í þessum efnum. Í ofangreindri fjármálaáætlun er talað um grunngildin fimm sem krafa er gerð um í lögum um fjármálastefnu og fjármálaáætlun. Þar er sjálfbærni efst á blaði. Það skýtur skökku við að leggja áherslu á sjálfbærni og ábyrgð gagnvart næstu kynslóð á sama tíma og skuldasöfnun vegna ófullnægjandi viðhalds og fjárfestinga í vegakerfinu er eins mikil og raun ber vitni. Uppsöfnuð viðhaldsþörf verður þá skuld næstu kynslóðar. Vegna vaxtar í tekjum af erlendum ferðamönnum undanfarin ár má fullyrða að við höfum aldrei áður byggt okkar velmegun jafn mikið og nú á vegakerfi landsins. Á sama tíma hefur ríkisstjórnin verið að leggja lítið til þessara mála. Arðsemi samgöngufjárfestinga er mikil ef rétt er haldið á spilunum. Í því ljósi er umhugsunarvert að ekki sé beitt neinni kerfisbundinni forgangsröðun í veitingu fjár til þessa málafloks og engin viðleitni hjá ríkisstjórninni að breyta því m.v. ofangreinda áætlum. Beita verður tólum kostnaðar- /ábatagreiningar til að forgangsraða í samgöngumálum. Með ábyrgri forgangsröðun er unnt að auka framleiðni samgöngukerfisins og í leiðinni hagkerfisins alls. Borgartúni 35 - 105 Reykjavík - Sími 591 0100 - mottaka@si.is - www.si.is mailto:mottaka@si.is http://www.si.is Nýsköpun - virkjum tækifærin Rík áhersla er lögð á eflingu nýsköpunar í fjármálaáætlun 2020-2024 og birtist það með margvíslegum hætti í áætluninni. Þetta er fagnaðarefni í ljósi þess, líkt og fram kemur í áætluninni, að nýsköpun er lykilforsenda í að auka framleiðni og lífskjör til framtíðar. Framlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina vaxa um ríflega fjórðung frá fyrri áætlun. SI leggja þunga áherslu á að þessum áætlunum verði ekki hnikað vegna mikilvægis nýsköpunar fyrir framtíðarlífskjör. Vinna stendur nú yfir við mótun á heildstæðri nýsköpunarstefnu fyrir Ísland en henni á að ljúka í maí 2019. Samtök iðnaðarins gáfu út nýsköpunarstefnu í febrúar 2019 þar sem sett eru fram fjögur markmið til að unnt verði að ná fram metnaðarfullri framtíðarsýn um að á Íslandi verði skilyrði til nýsköpunar með því besta sem þekkist í heiminum. Markmiðin snúa að eflingu á fjármögnunarumhverfi nýsköpunar, auknu framboði af sérfræðingum, einföldun og eflingu stuðningsumhverfis nýsköpunar og eflingu á kynningar- og markaðsstarfi. Fjármálaáætlun tekur til flestra þessara þátta með einum eða öðrum hætti en mikilvægt er að við mótun á áherslum í málaflokki nýsköpunar, rannsóknar og þekkingargreina sé hugað að því hverju aðgerðir og útgjöld stjórnvalda á þessu sviði skila og að árangur sé mældur. Aukin fjárframlög til málaflokksins eru mikilvæg, sérstaklega við núverandi efnahagsaðstæður þar sem þau búa í haginn fyrir framtíðarlífskjör, en duga ekki ein og sér. Stefna og sýn ríkisins í málaflokknum þarf að vera skýr og árangur skoðaður með reglulegu millibili. Í umræddri fjármálaáætlun kemur fram að lagt sé upp með að fjárfestingarsjóðir í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum geti óskað eftir mótframlagi frá stjórnvöldum. Tilgangurinn með þessu fyrirkomulagi væri að stórauka aðgengi sprotafyrirtækja að áhættufjármagni á fyrstu stigum. Samtökin eru hlynnt þessu enda er skortur á fjármagni ein meginhindrun fyrirtækja í vexti á Íslandi. Samtökin taka jafnframt undir þau markmið sem hafa verið skilgreind fyrir málaflokk nýsköpunar. Þar má fyrst og fremst nefna markmið um aukin útflutningsverðmæti á grunni nýsköpunar, bætta samkeppnisstöðu og aukna skilvirkni í stuðningsumhverfi nýsköpunar. T elja SI að talsvert svigrúm sé til þess að efla skilvirkni stuðningsumhverfis nýsköpunar, m.a. með því að skoða samlegðaráhrif í rekstri stofnana og kanna möguleika á sameiningum stofnana á þessu sviði. Markmiðið væri að minnka yfirbyggingu og þess í stað leggja stærri hluta fjármagns í skattaívilnanir og styrki til nýsköpunarfyrirtækja. Skattaendurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar hafa verið hækkaðar á undanförnum árum og hvetja Samtök iðnaðarins stjórnvöld áfram á þeirri braut með það að markmiði að Ísland standist samanburð við þau ríki þar sem skattaleg skilyrði til rannsókna og þróunar, sem er forsenda nýsköpunar, eru best. Starfsumhverfi - bætum skilyrðin Gott og heilbrigt starfsumhverfi fyrirtækja er grunnforsenda þess að fyrirtæki dafni og styðji við efnahagslega velsæld íbúa. Starfsumhverfi sem er stöðugt, hagkvæmt og skilvirkt í samanburði við starfsumhverfi í öðrum löndum er best til þess fallið að styðja við samkeppnishæfni fyrirtækja og skapa grundvöll aukinnar verðmætasköpunar. Borgartúni 35 - 105 Reykjavík - Sími 591 0100 - mottaka@si.is - www.si.is mailto:mottaka@si.is http://www.si.is Með þessi þrjú markmið að leiðarljósi við mótun fjármálaáætlunar og fjármálastefnu hins opinbera má sem best tryggja að starfsumhverfið skapi samkeppnishæft atvinnulíf og góð efnahagsleg lífskjör. Mikilvægt er að ríki, sveitarfélög, Seðlabankinn og vinnumarkaðurinn gangi í takt með það að markmiði að skapa fyrirtækjum slíkt starfsumhverfi. Þótt viðnámsþróttur fyrirtækja hér á landi sé almennt góður, þ.e. eiginfjárstaðan sé sterk og skuldir í hlutfalli af landsframleiðslu sögulega lágar, hefur viðnámsþrótturinn verið að veikjast undanfarið. Á þetta er m.a. bent í nýjustu skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika. Skuldahlutföll hafa hækkað og arðsemi eigin fjár dregist saman til muna. Þá hefur launakostnaður farið hækkandi hvort sem litið er á meðallaunakostnað á hvern starfsmann eða launakostnað í hlutfalli af tekjum og verðmætasköpun. Laun á vinnustund eru há hér á landi í alþjóðlegum samanburði. Laun hafa á síðustu árum hækkað langt umfram innlendan framleiðnivöxt og laun í löndum helstu keppinauta innlendra fyrirtækja. Staðan er umhugsunarefni m.a. í ljósi þess að fyrirtækin þurfa nú að takast á við minni innlenda eftirspurn og hagvöxt. Hún er einnig umhugsunarefni í ljósi þeirrar áleitnu spurningar með hvaða hætti má knýja áfram hagvöxt næstu ára. Mikilvægt er að tryggja íslenskum fyrirtækjum grundvöll þannig að framleiðni vinnuafls standi undir þessum launum og í leiðinni góðum efnahagslegum lífsgæðum hér á landi. Vextir eru háir í alþjóðlegum samanburði. Mikill munur er á bæði skammtíma- og langtíma og nafn- og raunvöxtum hér á landi og í helstu viðskiptalöndunum þó að munurinn hafi minnkað nokkuð undanfarið samhliða breyttum efnahagshorfum. Óstöðugleiki og peningastefna Seðlabankans birtist í þessum mun. Hagkvæmni stærðar skiptir máli í starfsemi fjármálafyrirtækja. Í hvítbók um fjármálakerfið segir að landsmenn sem taka lán hjá bönkunum greiða 45 krónur í álagningu bankanna af hverjum 100 sem þeir greiða í vexti. Þetta er hátt í alþjóðlegum samanburði en kostnaðarhlutföll íslenskra banka hafa verið að hækka undanfarið og eru þau há samanborið við banka af sambærilegri stærð á hinum Norðurlöndunum. Ríkið getur haft áhrif á þessa álagningu með því m.a. að stuðla að kostnaðarhagræði í rekstri bankanna og þannig lækkað vexti. Í því sambandi er jákvætt að í áætluninni sé gert ráð fyrir að bankaskattur verði lækkaður og að skatthlutfall hans lækki í fjórum jöfnum áföngum yfir tímabilið 2020-2023, úr 0,376% í 0,145%. Taka Samtök iðnaðarins undir að lækkunin veiti bönkunum svigrúm til að lækka vaxtamun og útlánavexti en með lægri vöxtum má m.a. auka fjárfestingu og nýsköpun. Skattheimta á íslensk fyrirtæki er há í alþjóðlegum samanburði. Skattar á fyrirtæki voru hækkaðir eftir efnahagsáfallið 2008 í þeirri viðleitni að loka fjárlagagatinu. Skattabreytingar þessar hafa fest sig í sessi. Má í því sambandi nefna tryggingagjaldið, en hátt tryggingagjald eykur launakostnað fyrirtækja og dregur úr afli þeirra til að ráða fleiri starfsmenn og veikir samkeppnishæfni þeirra gagnvart erlendum fyrirtækjum. Í þingsályktuninni segir að lækkun tryggingagjalds í tveimur skrefum um samtals 0,5 prósentustig árin 2019 og 2020 sé ætlað að styrkja rekstrarforsendur og samkeppnishæfni fyrirtækja í ljósi mikilla undangenginna kostnaðarhækkana og gefa þeim þannig aukið svigrúm í rekstri, m.a. til að koma til móts við launahækkanir og verja gegn fækkun starfsfólks í niðursveiflunni. Með þessi markmið að leiðarljósi hefðu Samtök iðnaðarins viljað sjá enn meiri lækkun tryggingagjalds. Borgartúni 35 - 105 Reykjavík - Sími 591 0100 - mottaka@si.is - www.si.is mailto:mottaka@si.is http://www.si.is Skilvirkni er víða ábótavant í íslensku efnahagslífi. Að sumu leyti má skrifa vandann á óhagræði stærðarinnar en smár heimamarkaður er takmörkun sem dregur úr skilvirkni og framleiðni sérstaklega í heimamarkaðsgreinum. Smæðin eykur mikilvægi opins hagkerfis sem byggir á nánu samstarfi við aðrar þjóðir og hvetur til virkari samkeppni og aukins og fjölbreyttari útflutnings. Umfang hins opinbera hefur vaxið verulega hér á landi á síðustu áratugum og er það mikið í alþjóðlegum samanburði sem endurspeglar að hluta að Ísland er norrænt velferðarkerfi. Auknu umfangi hins opinbera hefur fylgt aukin skattbyrði og álögur á fyrirtæki og heimili í landinu. Miklar áskoranir eru fram undan í þessum efnum, m.a. vegna öldrunar þjóðarinnar. Mikilvægt er að huga að skilvirkni og kostnaðarlágmörkun í rekstri hins opinbera. Talsvert vantar upp á skilvirkni innan þessa kerfis sem tryggir þá betri nýtingu á skattfé landsmanna og svigrúm til skattalækkana. Í því sambandi ber sérstaklega að nefna skort á forgangsröðun, m.a. í fjárfestingum hins opinbera í innviðum þar sem velja á eftir þjóðhagslegum ávinningi. Virðingarfyllst, aðalhagfræðingur SI Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI Borgartúni 35 - 105 Reykjavík - Sími 591 0100 - mottaka@si.is - www.si.is mailto:mottaka@si.is http://www.si.is