Ávana- og fíkniefni

Umsögn í þingmáli 711 á 149. þingi


Þingmál lagt fram: 19.03.2019 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 12 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 94 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar Viðtakandi: Velferðar­nefnd Dagsetning: 15.04.2019 Gerð: Umsögn
Reykjavík, 15. apríl 2019 R19040084 13720 Alþingi - nefndasvið Austurstræti 8-10 101 Reykjavík Efni: Umsögn mannréttinda-og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar á frumvarpi til laga um um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, með síðari breytingum (neyslurými), 149. löggjafarþing 2018-2019, þingskjal 1135-711. mál. Mannréttinda- og lýðræðisráð styður frumvarp til laga um neyslurými heilshugar og fagnar því að þetta mannréttindamál sé komið á dagskrá þingsins. Hugmyndafræði skaðaminnkunar liggur þessu frumvarp til grundvallar og er það fagnaðarefni þar sem skaðaminnkun er mannréttindamiðuð hugmyndafræði. Neyslurými hafa gefið góða raun í Danmörku og Kanada svo dæmi séu tekin og er ekki talin ástæða til að ætla að annað gildi um slíkt á Íslandi. Þegar neyslurými eru útbúin er nauðsynlegt að starfsemin sé skipulögð á heildrænan hátt með þarfir allra þeirra hópa sem koma til með að nýta úrræðið í huga. Mikilvægt er að litið sé til eftirfarandi atriða. Rýmið þarf að vera aðgengilegt fólki óháð fötlun, í nálægð við almenningssamgöngur og þar þurfa einstaklingar sem nýta neyslurýmið að geta nálgast tíðavörur auk annarra nauðsynja á borð við getnaðarvarnir. Í greinargerð er vísað til þess að að konur hljóti aðstoð og ráðgjöf í neyslurýminu, m.a. um getnaðarvarnir, til þess að koma í veg fyrir þungun kvenna í neyslu. Í þessu samhengi telur Mannréttinda- og lýðræðisráð mikilvægt að árétta að grundvöllur fyrir árangursríkri þjónustu við þennan hóp felst í samskiptum byggðum á trausti og virðingu þar sem tekið er á móti notendum með velvild og án fordóma. Þá telur Mannréttinda- og lýðræðisráð mikilvægt að öllum kynjum standi til boða fræðsla um kynheilbrigði og geti nálgast getnaðarvarnir. Einstaklingar sem koma til með að nýta úrræðið geta verið með alls konar kynvitund og verið af ýmsum kynjum. Þess vegna þarf að meta þarfir fólks með misjöfnum hætti. Til dæmis er mikilvægt að vera vakandi fyrir því hvort konur í neyslurýminu verði fyrir áreiti og ef grunur leikur á að kona hafi verið beitt ofbeldi er mikilvægt að bregðast við því. Þekkt er að ofbeldismenn nýti sér neyð kvenna í vímuefnaneyslu og því er mjög mikilvægt að tekið sé á hvers konar ofbeldi af festu ef verður vart við það í neyslurýminu. Í Danmörku var framkvæmd viðamikil eigindleg rannsókn á neyslurýmum í Árósum, Óðinsvé og Kaupmannahöfn en í rannsókninni voru greind þrjú mikilvæg áhersluatriði varðandi neyslurýmin og hvernig þau gagnast notendum. 1 Fyrsta atriðið var að notendur upplifi sig í öruggu umhverfi, annað var lifun, heilsa og velferð notenda og þriðja var að byggja brýr á milli notendanna við aðra þjónustugeira. Í því samhengi var vísað til vímuefnameðferða, félagsþjónustunnar og heilbrigðiskerfisins. Starfsfólk gat vísað notendum á viðeigandi staði og veitti þeim aðstoð við að tengjast félagsþjónustu, komast í vímuefnameðferð eða að leita til heilbrigðiskerfisins. Auðvelt er að færa rök fyrir gífurlegu mikilvægi þess að starfsfólk neyslurýmisins hafi aðgengi að fagaðilum og úrræði til að koma notendum til aðstoðar ef þess er óskað. Þetta á ekki síst við um þann hóp sem glímir við geðræn vandamál en hefur ekki komist undir eftirlit fagfólks vegna stöðu sinnar. Mikilvægt er að byggja á þessari reynslu og eiga gott samstarf við þær stofnanir sem að þessu koma og eru taldar upp í greinargerð frumvarpsins.2 Mannréttinda- og lýðræðisráð telur að þær stofnanir og félagasamtök sem komið hafa að þeirri undirbúningsvinnu sem átti sér stað í aðdraganda þessa frumvarps búi yfir nauðsynlegri fagþekkingu til þess að neyslurými geti orðið að veruleika og telur mikilvægt að sú þekking sé nýtt svo koma megi verkefninu á fót eins fljótt og auðið er. Vakin er athygli á því að ekki fylgir kostnaðarmat með frumvarpinu, en mikilvægt er að hafa í huga að svona verkefni kallar á að gert verði samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þar sem kveðið verði á um kostnaðarskiptingu þeirra. 1. Nanna Kappel, Eva Toth, Jette Tegner, Sigurd Lauridsen (Harm Reduction Journal), A qualitative study o f how Danish drug consumption rooms influence health and well-being amongpeople who use drugs, 16. júní 2016: https://harmreductionjournal.biomedcentral.com/articles/10.1186/s12954-016-0109-y#Sec1 [sótt 15. apríl 2019]. 2. Sama heimild. Virðingarfyllst, f.h. mannréttinda- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar, Guðrún Elsa Tryggvadóttir, lögfræðingur, mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar https://harmreductionjournal.biomedcentral.com/articles/10.1186/s12954-016-0109-y