Fiskeldi

Umsögn í þingmáli 647 á 149. þingi


Þingmál lagt fram: 05.03.2019 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 44 Fjöldi umsagnarbeiðna við þingmál: 145 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Umhverfis- og samgöngu­nefnd Viðtakandi: Atvinnu­vega­nefnd Dagsetning: 12.04.2019 Gerð: Umsögn
149. löggjafarþing 2018-2019. 647. mál. Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi (áhættumat erfðablöndunar, úthlutun eldissvæða, stjórnvaldssektir o.fl.). Frá umhverfis- og samgöngunefnd. Umhverfis- og samgöngunefnd hefUr að beiðni atvinnuveganefndar frá 20. mars sl. fjallað um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi, nánar tiltekið þann hluta frumvarpsins sem snýr að umhverfisáhrifum fiskeldis, þ.e. mengun og áhrif á lífríki fjarða og áa. Nefndin hélt sameiginlegan fund með atvinnuveganefnd til að fjalla um málið. Á þann fund mættu Auður Önnu Magnúsdóttir frá Landvernd, Árni Finnsson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, Jón Kaldal frá Iceland Wildlife Fund, Ólafur Ingi Sigurgeirsson lektor við Háskólann á Hólum, Helgi Þór Thorarensen prófessor við Háskólann á Hólum og Heiðrún Lind Marteinsdóttir, Einar K. Guðfinnsson og Guðbergur Rúnarsson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Í búgrein á borð við fiskeldi er megináskorunin fólgin í því að finna og ástunda jafnvægi milli náttúrunytja og náttúruverndar. Fiskeldi í opnum sjókvíum er háð mörgum umhverfisþáttum og veldur álagi á þá, bæði nær og fjær. Að mati nefndarinnar er eðlilegt að gera kröfu um að slíkt fiskeldi sé sem sjálfbærast, og að það þróist jafnt og þétt til rekjanlegrar sjálfbærni. Sjókvíaeldið gerir enn ríkari kröfur til framleiðenda, sérfræðinga, leyfisveitenda, eftirlitsaðila og annarra opinberra aðila en aðrar tegundir fiskeldis. Á það við til dæmis um burðarþolsmat eldissvæða, áhættumat vegna hættu á erfðablöndun við villta laxastofna og um hvers konar vöktun, eftirlit og mótvægisaðgerðir. Líkt og kom fram á fundi nefndarinnar hafa margvísleg álitamál vaknað við uppbyggingu fiskeldis á Íslandi og vísindamenn jafnt sem hagaðilar, þ.e. talsmenn fiskeldisfyrirtækja, laxveiðirétthafa og náttúruverndarsamtaka, eru ósammála um sum efnisatriði sem miklu varða um þróun atvinnuvegarins. Nefndin telur brýnt að umhverfisvernd verði leiðandi við uppbyggingu fiskeldis til jafns við félagsleg sjónarmið sem eru hluti sjálfbærnimats hverrar atvinnugreinar. Varkárni við uppbyggingu eldisstöðva og tillit til skoðana og krafna sem miða að sem skilvirkastri náttúruvernd skulu hafðar að leiðarljósi við ákvarðanir um rekstur og þróun fiskeldisins. Öflugt innra eftirlit eldisstöðva jafnt sem skilvirkt og sterkt eftirlit opinberra aðila er þar lykilatriði. Nefndin leggur áherslu á nokkra þætti sem hún telur hvað mikilvægasta til þess að svo verði. Áhættumat erfðablöndunar - vöktun og mótvægisaðgerðir. Nefndin leggur áherslu á vöktun og mótvægisaðgerðir í ljósi þess áhættumats erfðablöndunar sem er notað og lagt til að verði lögfest með frumvarpinu, og ber auk þess að endurskoða jafnt og þétt í ljósi nýrra vísindagagna. Nefndin er ekki þess umkomin að leggja mat á gæði þessa áhættumats eða á gagnrýni vísindamanna á það. Nefndin bendir engu að síður á að sólarhringsvöktun í rauntíma með bestu fáanlegu tækjum eigi að vera skylda fiskeldisfyrirtækja með opnar sjókvíar. Því þó unnið sé með spálíkön eins og áhættumat í upphafi er mikilvægt að til lengri tíma verði byggt á rauntölum úr rannsóknum og stöðugri vöktun. Styrkja ber eftirlit með sleppingum, jafnt eftirlit fyrirtækjanna sjálfra sem opinberra stofnana. Sleppi fiskur úr kvíum er þörf á skýrum og árangursríkum mótvægisaðgerðum. Bendir nefndin á reynslu frá Noregi þar sem leitað er að strokulöxum. Reynslan ber þess vitni að fiskarnir leita langoftast í nálægar ár þótt þeirra geti orðið vart í fjarlægum ám. Til eru aðferðir við að leita uppi og fjarlægja þess konar aðkomufiska. Meðal annars leita kafarar að þeim og fjarlægja úr ánum. Slíkar mótvægisaðgerðir ber að þróa hér á landi að mati nefndarinnar, og kosta meðal annars með fé úr atvinnugreininni. Vöktun á burðarþoli. Í annan stað leggur nefndin áherslu á sem öflugasta vöktun á því ætlaða burðarþoli eldisstaða og eldissvæða sem er einn hornsteinn leyfisveitinga og reksturs. Fjöldi kvía á leyfðu eldissvæði, stærð þeirra og tímaháður tilflutningur eru breytur sem eiga að lúta varúðarreglum og vera í samræmi við ráðleggingar og kröfur stofnana sem ákvarða þær við leyfisveitingar. Nefndin telur ekki að hún geti metið á raunhæfan hátt að hvaða marki burðarþolsmælingar og burðarþolsákvarðanir eru hafnar yfir vafa eða gagnrýni. Einnig hefur reynst erfitt að fá uppgefnar áreiðanlegar tölur um magn úrgangs frá helstu stærðum opinna sjókvía. Engu að síður hvetur nefndin til þess að farið sé stranglega eftir fyrirliggjandi burðarþolsmati á hverju fiskeldissvæði og það endurskoðað og uppfært eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Nefndin áréttar mikilvægi þess að fylgst sé vandlega með uppsöfnun úrgangs á eldissvæðum, með eins tíðum mælingum og unnt er, og ávallt verði gripið til ráðstafana þegar mörkum ásættanlegs úrgangs er náð. Tilfærsla kvía og álagshvíld botns undir þeim eftir tiltekinn notkunartíma er aðalaðferðin við að hamla gegn umhverfisspjöllum á sjávarbotni vegna fiskeldis í opnum sjókvíum. Strangt eftirlit og vöktun í sem næst rauntíma er lykill að því að aðferðin beri árangur. Auknar rannsóknir afla gagna sem styrkja bæði burðarþolsmatið og mótvægisaðgerðirnar. Nefndin hvetur þar með til árvekni við víðtækt mat á umhverfisáhrifum reksturs fiskeldisstöðva og leggur áherslu á að þeim sé mætt með vísindalegum mótvægisaðgerðum þar sem þess gerist þörf og leitast verði við að lágmarka þau umhverfisáhrif sem fiskeldi getur haft, þ.m.t. á aðra atvinnustarfsemi eins og ferðaþjónustu og aðra matvælaframleiðslu á svæðinu. Laxalús og önnur sníkjudýr. Að mati nefndarinnar er nauðsynlegt að efla vöktun í eldiskvíum, m.a. með tilliti til laxalúsar og annarra sníkjudýra. Nefndin fagnar aukinni áherslu á innra eftirlit rekstraraðila, m.a. með mánaðarlegri skýrslugjöf, sem eflir mótvægisaðgerðir gegn sníkjudýrum og sjúkdómum og enn fremur nýjum reglugerðarheimildum sem settar verða í lög um varnir gegn fisksjúkdómum. Nefndin áréttar mikilvægi þess að varnaraðgerðir gegn laxalús og öðrum sníkjudýrum séu umhverfisvænar. Annað. Nefndin fagnar ákvæðum/hvötum í frumvarpinu og líka í framlögðu frumvarpi um gjaldtöku í fiskeldi sem ýta undir umskipti úr hefðbundnu eldi í opnum kvíum yfir í eldi með geldfisk eða eldi í lokuðum kvíum í sjó. Verið er að þróa eldi með geldfiski til æ betri vegar og eldi í lokuðum kvíum veldur takmörkuðu álagi á umhverfið, m.a. þar sem úrgangsefni frá laxinum safnast í botn kvíar en ekki á sjávarbotn. Líkur á að fiskur sleppi úr slíkum kvíum eru hverfandi. Umhverfissjóður sjókvíaeldis er efldur samkvæmt frumvarpinu og lýsir nefndin sérstakri ánægju með þá ráðstöfun. Loks fagnar nefndin samráðsnefnd um fiskeldi sem sett verður á fót. Hún mun geta eflt samstarf hagaðila og sérfræðinga og þannig stuðlað að sem umhverfisvænstu fiskeldi og styrkari vísindagrunni, jafnt áhættumats sem burðarþolsmats. Aukið gegnsæi í rekstri fiskeldis og birting upplýsinga úr honum kallar á frekara aðhald og umbætur, m.a. með því að allir hagaðilar, þ.m.t. náttúruverndarsamtök og veiðirétthafar, geta kynnt sér starfsemina með þessu móti. Með frumvarpinu eru lögð til hert viðurlög við brotum gegn lögum um fiskeldi með það að markmiði að auka varnaðaráhrif þeirra. Nefndin telur þetta til bóta og til þess fallið að ýta undir bættan rekstur í heild sinni, til góða fyrir atvinnugreinina en ekki síst umhverfið. Björn Leví Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur umsögn þessari. Alþingi, 9. apríl 2019. Jón Gunnarsson form. Ari Trausti Guðmundsson Hanna Katrín Friðriksson Páll Valur Björnsson Karl Gauti Hjaltason Líneik Anna Sævarsdóttir Una Hildardóttir Vilhjálmur Árnason