Verslun með áfengi og tóbak o.fl.

Umsögn í þingmáli 110 á 149. þingi


Þingmál lagt fram: 20.09.2018 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 15 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 22 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Samtök ferðaþjónustunnar Viðtakandi: Velferðar­nefnd Dagsetning: 14.06.2019 Gerð: Umsögn
Nefndasvið Alþingis b.t. velferðarnefndar Austurstræti 8-10 101 Reykjavík Reykjavík, 14. júní 2019 Efni: Umsögn SAF - Samtaka ferðabiónustunnar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissióðs, áfengislögum, lögum um landlækni og lýðheilsu og lögum um fiölmiðla, með síðari breytingum (smásala áfengis), 110. mál. Hinn 20. september 2018 lagði sjöundi þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður ásamt sex þingmönnum Viðreisnar, Pírata og Sjálfstæðisflokks, fram frumvarp á Alþingi um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum, lögum um landlækni og lýðheilsu og lögum um fjölmiðla. Með frumvarpinu eru lagðar til veigamiklar breytingar á fyrirkomulagi smásölu áfengis og heimildum til að auglýsa áfenga drykki. Í grundvallaratriðum felast breytingarnar annars vegar í því að einkaréttur ÁTVR á smásölu áfengis verði afnuminn og salan gefin frjáls að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og hins vegar í því að auglýsingar áfengis verði heimilaðar með nokkrum takmörkum þó. Frumvarpinu var vísað til velferðarnefndar að fyrstu umræðu lokinni, hinn 13. maí sl. Með tölvupósti, dags. 5. júní sl., óskaði nefndin eftir umsögn SAF - Samtaka ferðaþjónustunnar um frumvarpið. Frumvarpið hefur verið tekið til skoðunar á vettvangi SAF. Eins og tekið er fram í inngangsorðum greinargerðar þess hefur það að stofni til verið lagt fram nokkrum sinnum á Alþingi. Það hefur hins vegar tekið nokkrum breytingum frá því það var fyrst lagt fram og er nú komið í takmarkaðra horf þegar horft er til sjónarmiða um frelsi í viðskiptum. Þar með hafa flutningsmenn tekið tillit til ýmissa sjónarmiða sem komið hafa fram í umsögnum undanfarin ár. Í því samhengi má segja að frumvarpið hafi þroskast og færst nær áherslum sem hlotið hafa fylgi í skoðanakönnunum. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum frumvarpsins stefnir það nú að því að heimila smásölu áfengis í sérverslunum með mat- og drykkjarvörur en ekki stórmörkuðum og matvöruverslunum. Hins vegar er jafnframt gert ráð fyrir því að sveitarfélög geti ákveðið að áfengi megi selja í afmörkuðu rými innan almennra verslana þegar svo háttar til að forsendur fyrir rekstri sérverslana reynast ekki til staðar. Í frumvarpinu er ekki lagt til að verslanarekstur ÁTVR sæti breytingum. Þá er jafnframt lagt til að auglýsingar áfengis verði heimilaðar með nokkuð ströngum takmörkunum sem einkum snúa að birtingartíma, birtingarstað, markhópum og efni. Samtök ferðaþjonustunnar ▼ Borgartuni 35,105 Reykjavík » 511 8000 ▼ saf@saf.is * www.saf.is mailto:saf@saf.is http://www.saf.is Rétt er að taka fram að SAF hafa áður veitt umsagnir um þau frumvarp sem segja má að séu fyrirrennarar þess frumvarps sem hér er fjallað um. Í þeim hefur það meginstef verið slegið að hvetja til samþykktar frumvarpsins ásamt áskorun um að breytingar verði gerðar á reglum um áfengisauglýsingar. Þó svo að efni frumvarpsins séu nú a.m.k. að nokkru í samræmi við fyrri frumvarp hafa aðildarfyrirtæki SAF nú talið tilefni til þess að fjalla nánar um grundvallarefni frumvarpsins út frá hagsmunum ferðaþjónustufyrirtækja. Í eftirfarandi umfjöllun verða nokkur atriði reifuð sem SAF leggja sérstaka áherslu á um þessar mundir og þá ekki síst í ljósi breytinga sem hafa orðið á efnahagshorfum og samkeppnisstöðu ferðaþjónustufyrirtækja. Samkeppnisstaða ferðaþjónustunnar. Þrátt fyrir að verulegur árangur hafi náðst við markaðssetningu Íslands sem áfangastaðar og ferðamannafjöldi hafi vaxið mikið síðustu ár horfum við nú fram á breytingar. Sýnt þykir að komum ferðamanna muni fækka hið minnsta milli áranna 2018 og 2019. Jafnvel virðist hætt við að samdráttur ferðamannakoma verði meiri og langdregnari en áætlað hefur verið. Undir slíkum kringumstæðum er nauðsynlegt að horfa inn á við og bregðast við með aðgerðum sem eru þess umbúnar að hlúa að stofni ferðamanna. Meðal aðgerða sem grípa mætti til í því skyni eru að lækka verð á mat og drykk og fjölga tækifærum til að veita ferðamönnum þjónustu. Það verður að teljast á almannavitorði að íslenskt verðlag er hátt í alþjóðlegum samanburði. Þegar að áfengissölu kemur er íslensk verðlagning oftast í sérflokki. Ástæðu þess má rekja til hás rekstrarkostnaðar og hárra skatta. Áfengisgjald er afar hátt á Íslandi en ástæðu þess má fyrst og fremst rekja til áfengisstefnu stjórnvalda. Þannig er áfengisgjaldið bæði ætlað að hafa takmarkandi áhrif á áfengisneyslu og stuðla að neyslu öls, blandaðra drykkja og léttvíns sem hefur lága áfengisprósentu í stað sterkra drykkja. Smásöluverð áfengis í verslunum ÁTVR er því hátt í alþjóðlegum samanburði. Þá er áfengisverð á vínveitingastöðum jafnframt hátt. Ferðamenn neyta gjarnan áfengis í ferðum um landið og hefur það m.a. komið fram í aukinni smásölu áfengis sem grein hefur verið gerð fyrir í ársskýrslum ÁTVR. Hins vegar reka rekstraraðilar í veitingasölu sig æ oftar á að ferðamenn setja áfengisverð fyrir sig. Að mati SAF er orðið tímabært að aðgreina forsendur áfengisgjalds í tilviki smásölu annars vegar og í tilviki veitingasölu hins vegar. Álagning ÁTVR er lögbundin en hún er frjáls í veitingarekstri. Í ljósi hás rekstrarkostnaðar í veitingasölu er fyrirséð að áfengisverð á veitingastöðum verður áfram hátt. Um þessar mundir leita menn leiða til að efla samkeppnishæfni og verðmætasköpun í ferðaþjónustu. Verulegt tækifæri er því til staðar til að lækka með einum eða öðrum hætti skattlagningu á áfengi sem selt er á vínveitingahúsum. Þar sem áfengisgjald er greitt af innflytjendum og framleiðendum og erfitt getur reynst að gera greinarmun á áfengi sem flutt er inn eða framleitt til smásölu eða til sölu á vínveitingastöðum telja SAF koma til greina að fara svokallaða endurgreiðsluleið, þ.e. að endurgreiða veitingasölum áfengisgjald af seldu áfengi að heild eða hluta. Benda má á að slík aðgerð ætti að vera þess bær að tryggja betur en nú er að áfengissala eigi sér stað með eðlilegum hætti en ekki í svarta hagkerfinu. Þegar að því kemur að auka fjölbreytni í ferðaþjónustu er hægt um vik að horfa til nágrannaríkja. Í mörgum ríkjum, sem tekist hefur að skapa sér nafn við áfengisframleiðslu, bjóða framleiðendur áfengis upp á kynningu á starfseminni gegn gjaldi. Að slíkri kynningu býðst ferðamanninum að kaupa framleiðsluna sem hann hefur kynnt sér beint af framleiðandanum. Mikil gróska hefur verið í framleiðslu áfengra drykkja á Íslandi undanfarin ár og hefur hróður sumra framleiðenda borist út fyrir landsteinana. Að mati SAF er því verulegt tilefni til þess að tryggja að áfengisframleiðendur geti boðið upp á sambærilegar kynningar hér á landi og selt ferðamönnum framleiðslu sína að skoðunarferð lokinni, e.t.v. með viðeigandi takmörkunum. Áfengisauglýsingar. SAF styðja þær tillögur sem koma fram í 16. gr. frumvarpsins. Það horfir til jafnræðis að innlendum framleiðendum verði gert mögulegt að auglýsa framleiðslu sína til jafns við erlenda. Sýnist SAF þær öryggisráðstafanir sem felast í skilyrðum og bannákvæðum 3.-7. mgr. frumvarpsgreinarinnar í meginatriðum vera skynsamlegar. Æskilegt væri að með einhverjum hætti yrði kveðið á um að framkvæmt yrði reglulegt mat á áhrifum auglýsinganna a.m.k. fyrst um sinn eftir lögfestingu greinarinnar. Smásala áfengis. Að mati SAF hefur ÁTVR staðið sig með prýði þegar að smásölu áfengis kemur. Þó svo að fyrirkomulag, opnunartími og aðgengi að vínbúðum stofnunarinnar hafi færst síðustu ár nær því sem tíðkast í almennum verslunarrekstri hefur stofnuninni gengið vel við að vinna samkvæmt áfengisstefnunni. Úrval í verslunum stofnunarinnar er til fyrirmyndar og meiri hluti landsmanna virðist hafa verið sáttur við þjónustuna. Komi til þess að Alþingi telji forsvaranlegt að auka frelsi smásölu með áfengi hvetja SAF til þess að frelsisaukningin eigi sér stað í nokkrum smáum skrefum á einum til tveimur áratugum. Þannig mætti hugsa sér að tillögur samtakanna sem snúa að bættri samkeppnisstöðu ferðaþjónustunnar hér að framan geti verið fyrstu skrefin. Fylgjast verður vel með reynslunni og ef tilefni er til mætti skoða frekari tilhliðranir í framhaldinu. Virðingarfyllst, F.h. SAF - Samtaka ferðaþjónustunnar Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur