Verslun með áfengi og tóbak o.fl.

Umsögn í þingmáli 110 á 149. þingi


Þingmál lagt fram: 20.09.2018 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 15 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 22 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum Viðtakandi: Velferðar­nefnd Dagsetning: 05.06.2019 Gerð: Umsögn
5. júní Hafnarfirði 2019 Umsögn Foreldrafélags gegn áfengisauglýsingum 149. löggjafarþing 2018-2019. Þingskjal 110 — 110. mál. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum, lögum um landlækni og lýðheilsu og lögum um fjölmiðla, með síðari breytingum (smásala áfengis). Áfengisneysla hefur mikil áhrif á líf fólks á Íslandi. Samkvæmt skýrslu Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er áfengisneysla á meðal þeirra 10 þátta sem hafa mest áhrif á dánartíðni Íslendinga. Í Evrópuskýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar eru birtar mælingar á áhrifum ólíkra aðferða við að draga úr vandamálum tengdum áfengisneyslu. Þar kemur fram að heildaráfengisneysla þjóðar hefur áhrif á heilbrigði og sjúkdóma. Aukning eða minnkun áfengisneyslu hefur bein áhrif á tíðni ákveðinna sjúkdóma og dauðsfalla. Stjórnun á aðgengi og eftirlit með framboði áfengis hafa, samkvæmt Evrópuskýrslunni, reynst árangursríkustu og hagkvæmustu leiðirnar til þess að koma í veg fyrir skaða af völdum þess. Margar rannsóknir ýta undir það að álagning skatta, takmörkun fjölda sölustaða og takmarkaður sölutíma virki einna best. Aldurstakmarkanir á áfengiskaupum virðist vera leið sem hefur dregið úr unglingadrykkju auk breyttra viðhorfa í samfélaginu. Norðurlönd utan Danmörku hafa sambærilega stefnu varðandi sölu á áfengi sem snýr að samfélagslegri ábyrgð. Á þessum stöðum eru einkasala ríkisins sem hefur það meðal annars að markmiði að takmarka aðgengi og draga úr skaða af völdum neyslunnar. Í þessum löndum eru reglugerðir sem koma í veg fyrir sölu áfengis til ungs fólk. Sala áfengis snýst ekki um að hámarka hagnað. Áfengiseinokunarsölurnar sýna hlutleysi í markaðssetningu og almennt er spornað gegn auglýsingum og almennri markaðssetningu. Þetta fyrirkomulag hefur gengið ágætlega og ríkir almenn sátt um það. Því er óljóst hvaða samfélagslegi ávinningur felst í því að breyta þessu fyrirkomulagi og byrja að selja áfengi í matvöruverslunum? Í okkar þjóðfélagi er eðlilegt að aðgengi að hættulegum vörum sé takmarkað. Lyf, byssur, eitur, sprengjur, gas og tóbak eru meðal annars vörur sem við getum ekki keypt í næsta stórmarkaði. Það er eflaust einhver hópur sem vill aukið aðgengi að þessum vörum en aukið aðgengi landsmanna að þessum vörum mun trúlega þýða aukna misnotkun og jafnvel takmarkaðra vöruúrval. Er ekki eðlilegt að vörur sem eru hættulegar lúti reglum sem takmarkar aðgengi að þeim? Áfengi er hættulegt, það er misnotað, það hefur áhrif á fleiri aðila en þann sem neytir þess. Það liggur alveg fyrir og allir átta sig á því að aukið aðgengi að vörum þýðir að öðru jöfnu aukna neyslu. Því mun frumvarpið, ef það verður samþykkt auka neyslu landsmanna á áfengi. Því miður tekst verslunum illa að koma í veg fyrir að börn kaupi hjá þeim tóbak og má auðveldlega yfirfara kannanir Hafnarfjarðarbæjar á sölu tóbaks til barna yfir á þá hugmynd að selja áfengi í matvöruverslunum. Í könnunum Hafnarfjarðarbæjar þar sem verslunum og bæjaryfirvöld hafa bundist höndum saman til að sporna gegn sölu tóbaks til barna, fá sölustaðir með ca. viku fyrirvara skilaboð um að nú eigi að fara fram könnun og þeir hvattir til að tryggja að reglum varðandi sölu tóbaks sé framfylgt. Um viku síðar mæta grunnskólabörn og reyna að kaupa tóbak af verslunum sem taka þátt í forvarnaátakinu. Í síðustu könnun, janúar 2016 og janúar 2017, seldi um helmingur sölustaða börnum sígarettur og neftóbak. Í almennum verslunum er iðulega ungt starfsfólk en í verslunum ÁTVR eru starfsmenn fullorðnir og með viðeigandi þjálfun. Ætla má að auglýsingar og önnur markaðssetning á áfengi muni aukast til muna. Því miður sanna dæmin að margir framleiðendur og söluaðilar áfengis hafa ekki virt þau lög eða teygt á þeim sem gilda varðandi auglýsingabann. Með harðnandi samkeppni og auknu aðgengi sem lögin fela í sér má auðveldlega ætla að öll markaðssetning verði aukin. Fleiri auglýsingar, hvort sem þær eru beinar eða óbeinar munu á einhvern hátt beinast að saklausum börnum, unglingum og þeim sem eru áhrifagjarnir. Flutningsmenn tillögunnar hafa greinilega lítið kynnt sér gögn um skaðsemi og áfengisforvarnir. Þeir nefna sérstaklega að áfengisneysla á Íslandi sé tarnakennd. Hér er gefið í skyn að það sé æskilegt að áfengisneysla sé jafnari og stöðugri. Þannig má draga þá ályktun að það sé verra að drekka á skömmum tíma og að flutningsmenn vilji dreifa neyslunni. Viljum við stefna þangað þar sem við drekkum iðulega léttvín með mat, horfum á íþróttir með bjórdós í hendi og fáum okkur kokteil þegar heim er komið eftir hvern starfsdag? Heildarneysla þjóðarinnar á áfengi eykst ár frá ári og sú þróun ein og sér er uggvænleg og sérstaklega ef horft er á samanburð við þjóðir sem neyta oftar að jafnaði en við áfengi s.s. gagnvart lifrarsjúkdómum og ýmsum ótímabærum dauðsföllum tengdum áfengisneyslu. Varla þarf að minna á þann árangur sem náðst hefur varðandi unglingadrykkju. Slíkan árangur þarf að viðhalda og halda þarf áfram með öflugt fyrirbyggjandi starf fyrir eldri aldurshópa milli 16 og 19 ára. Sjálfur heilbrigðisráðherra hefur samþykkt ágæta stefnu í áfengis- og vímuvörnum sem sveitarfélög og félagasamtök hafa til hliðsjónar í fræðslu- og forvarnaverkefnum sínum. Sú stefna skilgreinir áfengi ekki sem matvöru heldur sem efni sem við þurfum að umgangast með aðgát. Í stefnunni er lögð áhersla á að takmarka aðgengi að áfengi og vernda sérstaklega hópa eins og börn og unglinga. Hinsvegar ber að fagna tillögu sem miðar að því að hækka framlög til lýðheilsusjóðs með hærra áfengisgjaldi. Foreldrafélag gegn áfengisauglýsingum telur því fátt mæla með því að breyta fyrirkomulagi varðandi sölu áfengis og leggst gegn frumvarpinu. Fyrir hönd stjórnar Geir Bjarnason Gjaldkeri Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum kt. 3006665829